Um KMÍ
Á döfinni

20.10.2022

Steve Gravestock í Bíó Paradís – útgáfufögnuður

Útgáfu bókarinnar A History of Icelandic Film, eftir Steve Gravestock, verður fagnað í Bíó Paradís 25. október klukkan 16:00.

Steve Gravestock hefur verið einn dagskrárstjóra Toronto International Film Festival síðan 1999. Í rúma tvo áratugi hefur hann sett norræna kvikmyndagerð á oddinn á hátíðinni, þar sem á fjórða tug íslenskra mynda hafa verið teknar til sýningar frá aldamótum. Hann hefur meðal annarra verkefna komið að dagskrá norrænna kvikmynda, Nordic Bridges hjá Harbourfront miðstöðinni í Toronto, þar sem kvikmyndirnar Mýrin, Reykjavík Rotterdam og Morðsaga voru til dæmis sýndar. Árið 2019 stjórnaði hann sýningaröð, sem fór fram í nokkrum borgum í Kanada, þar sem tíu íslenskar kvikmyndir voru í brennidepli.

Í þessari yfirgripsmiklu bók fjallar Steve Gravestock um upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi fram á okkar daga, með megináherslu á þróun og sögu kvikmynda hér á landi síðustu 40 ár.

Hann flytur stutt erindi í Bíó Paradís í tilefni af útgáfu bókarinnar. Hlín Jóhannesdóttir, formaður ÍKSA, og Ragnar Bragason, formaður SKL, kynna og leiða samræður.