Stjórnendur virtra evrópskra kvikmyndahátíða funda á Íslandi
Von er á ríflega 30 skipuleggjendum þekktra evrópskra kvikmyndahátíða til landsins í vikunni til þess taka þátt í vinnusmiðju á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík - RIFF.
Fjallað verður um græn málefni; hvernig stuðla megi að aukinni sjálfbærni kvikmyndahátíða auk þess sem fjallað verður um aðferðir við dagskrárgerð og hvernig þróa megi nýjar leiðir til að ná til áhorfenda. Vinnustofurnar fara fram í Hveragerði dagana 25. - 27. Nóvember.
Framtíðarsýn evrópska kvikmyndahátíða
RIFF er ein af sjö evrópskum kvikmyndahátíðum sem mynda bandalagið Sjö sniðugar (SMART7) sem stofnað var fyrir þremur árum. Hátíðarnar njóta mikillar viðurkenningar alþjóðlega og hafa svipaða sýn. Markmiðið er að vinna saman að því að auka fagmennsku og bæta þekkingu meðal starfsfólks þessara sjö hátíða og velja í sameiningu myndir, eina frá hverju landi, til að stuðla að dreifingu evrópskra kvikmynda eftir upprennandi og framsækna leikstjóra.
Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF segir að mikilvægt sé að hátíðirnar starfi saman. „Með þessu móti er auðveldara að leysa áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og móta í sameiningu framtíðarsýn evrópskra hátíða sem hafa svipaða sýn.“
MEDIA - Creative Europe hefur styrkt bandalagið frá upphafi en fyrstu vinnustofurnar voru haldnar í Wroclaw í Póllandi í fyrra þar sem fjallað var um samstarfsaðila kvikmyndahátíða og markaðsmál en næstu vinnusmiðjur verða á næsta ári í Lissabon í Portúgal.
Samstarfshátíðir sem mynda bandalagið 7 Sniðugar eru íslensku kvikmyndagerðarfólki vel kunnar þar sem íslenskar myndir hafa verið sýndar á þeim flestum en þær eru auk RIFF, Transilvania Film Festival í Rúmeníu (TIFF), IndieLisboa í Portúgal, Þessalóníkuhátíðin á Grikklandi (TIFF) , Vilnius kvikmyndahátíðin í Litháen, New Horizons í Wroclaw í Póllandi og FILMADRID á Spáni.
Íslenskur kvikmyndagerðarnemi í evrópskri dómnefnd
Nýlega voru veitt verðlaun í flokknum Sjö sniðugar (SMART7) en sjö myndir eftir unga og framsækna höfunda voru valdar til sýninga á öllum hátíðunum í ár. Sjö manna dómnefnd skipuð ungu fólki, einu frá hverju landi, valdi pólsku myndina, Þetta er ekki myndin mín (This Is Not My Film), sem þá bestu í ár. RIFF auglýsti eftir umsækjendum til að sitja í dómnefnd og var Nikulás Tumi Hlynsson kvikmyndagerðarnemi valinn til þess að fara til Þessalóníku að þessu sinni, en hátíðinni þar er nýlokið.