Um KMÍ
Á döfinni

7.3.2024

Stockfish heiðrar minningu Evu Maríu Daniels

Kvikmyndahátíðin Stockfish fer fram dagana 4.-14 apríl í Bíó Paradís. Fleiri en 25 nýjar kvikmyndir verða sýndar á hátíðinni, sem fagnar um leið 10 ára afmæli sínu. Auk þess verður fjöldi stuttmynda sýndar í stuttmyndakeppni hátíðarinnar, Sprettfisk, sem er einn af hornsteinum Stockfish.

Stofnaður hefur verið nýr flokkur innan keppninnar í minningu Evu Maríu Daniels kvikmyndagerðarkonu, sem lést í fyrra 43 ára að aldri eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Verðlaunin verða veitt í samstarfi við eiginmann Evu, Moritz Diller, og son þeirra, Henry. Einn upprennandi framleiðandi eða leikstjóri í stuttmyndakeppninni hlýtur verðlaunin í minningu afreka Evu og áframhaldandi framlags hennar til næstu bylgju kvikmyndagerðarmanna á Íslandi. Vinningshafinn fær 1,5 milljónir íslenskra króna til að vinna að næsta verkefni sínu.

Riva Marker, framleiðandi og samstarfskona Evu til margra ára, fer fyrir dómnefndinni, sem er skipuð starfsfélögum Evu. Þeirra á meðal eru Elfar Aðalsteins leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi, Nigel Godrich framleiðandi og tónskáld, Oren Moverman framleiðandi, Jessie Cohen kynningarstjóri, Sascha Drews leikstjóri og fjárfestir, Will O'Connor handritshöfundur og fjárfestir, Gunnar Ólafsson leikstjóri og Börkur Sigþórsson handritshöfundur og leikstjóri.

„Nálgun Evu í kvikmyndaframleiðslu var að hlusta á og styðja við fólk sem var sannarlega hæfileikaríkt,“ segir Riva Marker. „Við munum aldrei fá að vita hvaða fallegu sögur hún hefði fært áhorfendum, en við erum stolt af því að geta í nafni hennar veitt hæfileikaríku fólki verðlaun og hvatningu, eitthvað sem við trúum og vitum að Eva hefði verið ánægð með.“

Í tilkynningu Stockfish segir að verðlaunin undirstriki áhrifin sem Eva hafði á kvikmyndaiðnaðinn. Þeim sé ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að segja sögurnar – og að segja þær fyrr en síðar. Eva framleiddi níu kvikmyndir á ævi sinni og voru þær frumsýndar á virtum kvikmyndahátíðum, þar á meðal Berlinale, TIFF, Sundance og fleirum. Nýjustu kvikmyndir hennar eru meðal annars Reality, í leikstjórn Tinu Satter með Sydney Sweeney í aðalhlutverki, Joe Bell sem Reinaldo Marcus Green leikstýrir með Mark Wahlberg og Reid Miller í aðalhlutverki og Hold the Dark í leikstjórn Jeremy Saulnier með Jeffrey Wright í aðalhlutverki. Eva starfaði sem ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands 2022-2023.

Ljósmynd: Valgarður Gíslason.