Um KMÍ
Á döfinni

24.3.2022

Stockfish kvikmyndahátíðin hefst 24. mars

Stockfish kvikmyndahátíðin hefst fimmtudaginn 24. mars í Bíó Paradís og stendur til 3. apríl.

Opnunarmynd hátíðarinnar er úkraínska kvikmyndin Klondike, eftir Marynu Er Gorbach. Myndin gerist í Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu við landamæri Rússlands og segir frá Irku og Tolik, sem bíða eftir fæðingu frumburðar síns. Þegar flugvélin MH17 er skotin niður af rússneska hernum og brotlendir á landi þeirra breytist eftirvæntingin skyndilega í ótta. Aðalleikona myndarinnar, Oksana Cherkashina, situr fyrir svörum eftir sýningar myndarinnar.

https://www.youtube.com/watch?v=Wkk2sZnpL30

Teiknimyndaserían My Year of Dicks, í leikstjórn Söru Gunnarsdóttur, er frumsýnd á hátíðinni. Serían er eftir handritshöfundinn Pamelu Ribon og byggist hún á endurminningabók hennar, Notes to Boys: And Other Things I shouldn‘t Share in Public. Pamela Ribon er einn af gestum Stockfish í ár en hún og Sara sitja fyrir svörum eftir frumsýningu þáttanna auk þess sem Pamela verður einn af þátttakendum í panelumræðum um handritsgerð á Bransadögum Stockfish á Selfossi.

Sprettfiskur, stuttmyndakeppni hátíðarinnar, verður með breyttu sniði í ár. Til að þjóna og vekja athygli á breiðari hóp kvikmyndagerðafólks og kvikmyndaverka fer hún fram á fjórum keppnisbrautum þar sem skáldverk, heimildaverk, tilraunaverk og tónlistaverk eru aðskilin. Hátt í 100 verk voru send inn í keppnina í ár, sem er metfjöldi.

Sem fyrr verður fjöldi viðburða fyrir kvikmyndagerðarfólk í boði á meðan hátíðinni stendur. Framleiðsluteymi Dýrsins veitir til dæmis innsýn í sjónrænar brellur myndarinnar á Bransadögum á Selfossi, en teymið er það fyrsta í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar til að hljóta alþjóðleg verðlaun í flokki tæknibrella, og Anika Kruse, ráðgjafi í grænni kvikmyndagerð, leiðir örnámskeið um útfærslumöguleika sjálfbærrar kvikmyndastefnu.

Stockfish Film Festival er bæði ætluð kvikmyndaunnendum sem vilja sjá alþjóðlegar verðlaunamyndir í bíó sem og fagfólki í kvikmyndabransanum. Hátíðin er haldin árlega í samvinnu við Bíó Paradís og öll fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Með hátíðinni var Kvikmyndahátíð Reykjavíkur endurvakin undir nýju nafni en hún var síðast haldin árið 2001 og var upphaflega sett á laggirnar árið 1978.

Allar nánari upplýsingar um þær kvikmyndir sem verða sýndar, miðakaup, aðra viðburði og dagskrá er að finna á vef Stockfish.