Stuttmynd Rúnars Rúnarssonar heiðruð á Ítalíu
O (hringur), stuttmynd í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Segni de la notte sem fór fram í Urbino á Ítalíu 2.-6. apríl.
Umsögn dómnefndar:
„O (hringur) hlýtur viðurkenningu fyrir hugrakka túlkun á flóknu sambandi fíknar og fjölskyldu, hráa tilfinningalega dýpt og getu til að fanga fínleika mannlegrar baráttu, með meistaralegri leikstjórn og kraftmiklu myndmáli. Með sínum gráu litatónum fangar myndin blæbrigði mannlegs eðli og heldur áhorfandanum spenntum við að fylgast með aðalpersónunni berjast við að breyta örlögum sínum. Myndin kannar áleitnar tilfinningar líkt og einmannaleika, sem og sársaukafullan veruleika fíkla, með kraftmiklum leik og augnablikum sem nísta hjartað.”
Þetta eru áttundu alþjóðlegu verðlaunin sem stuttmyndin hlýtur. Hún hefur verið sýnd á mörgum af virtustu kvikmyndahátíðum heims síðan hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2024 og er í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2025.
Með aðalhlutverk fer Ingvar E. Sigurðsson og er myndin framleidd af Heather Millard.