Um KMÍ
Á döfinni

28.10.2024

Stuttmynd Rúnars Rúnarssonar í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Valladolid á Spáni tilkynnti um helgina að stuttmyndin O (Hringur) eftir Rúnar Rúnarsson hefði hlotið verðlaun sem besta evrópska stuttmyndin á hátíðinni. Verðlaunin gera það að verkum að myndin verður sjálfkrafa í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2025.

O (Hringur) er ljóðræn frásögn af manni sem vill standa sig en hans helsta hindrun er hann sjálfur. Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverkið. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í haust og hefur síðan verið sýnd á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða.

Þetta er fjórða stuttmynd Rúnars sem vekur athygli á heimsvísu. Hinar þrjár eru Krossgötu þríleikurinn (Síðasti bærinn, Smáfuglar og Anna) sem hlutu fjölda alþjóðlegra verðlauna. Til að mynda var Síðasti bærinn tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2006.

Eftir Rúnar liggja einnig kvikmyndirnar Eldfjall, Þrestir, Bergmál og Ljósbrot, sem hafa verið valdar á margar af helstu kvikmyndahátíðum heims og unnið til verðlauna.

Ljósmynd: Frá heimsfrumsýningu O (Hringur) alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.