Um KMÍ
Á döfinni

14.1.2022

Svörtu sandar valin til þátttöku á Berlinale kvikmyndahátíðinni

Sjónvarpsþáttaröðin Svörtu sandar, undir leikstjórn Baldvins Z, hefur verið valin til þátttöku á Berlinale Series hluta alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Hátíðin, sem er ein fárra svokallaðra „A“ hátíða í heiminum, fer fram frá 10. – 20. febrúar næstkomandi.

Alls voru sjö þáttaraðir valdar inn í dagskrána og munu fyrstu tveir þættirnir af Svörtu söndum vera frumsýndir alþjóðlega á hátíðinni. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslensk þáttaröð er valin í þennan flokk. Berlinale Series var komið á fót árið 2015 og sýnir nýjar þáttaraðir hvaðanæva úr heiminum, en Berlínarhátíðin var ein fyrsta stóra hátíðin til að bæta sjónvarpsþáttaröðum inn í aðaldagskrá sína.

Svörtu sandar trailer

Í umsögn dómnefndar um Svörtu sanda er seríunni hrósað sérstaklega fyrir dýpt í karaktersköpun, óvenjulegan snúning á hina hefbundnu leit að sökudólg í glæpaseríum með því að leyfa persónulegu lífi og áskorunum karakteranna að vega þyngra en málið sjálft sem þau rannsaka. Þar að auki geri áferð seríunnar, myndatakan og hið fallega umhverfi suðurstrandar Íslands, verkefnið sannarlega einstakt að mati nefndarinnar.

Svörtu sandar segir frá Anítu, þrítugri lögreglukonu, sem neyðist aftur á æskuslóðirnar sem hún flúði fyrir 14 árum. Uppgjör við móður hennar er óumflýjanlegt en líkfundur af ungri konu kollvarpar öllu. Aníta sogast niður dimman hyl fortíðar í leit að mögulegum fjöldamorðingja og uppgjörið breytist í martröð.

Aldís Amah Hamilton, Ragnar Jónsson og Baldvin Z skrifa handritið að Svörtum söndum og framleiðendur eru Arnbjörg Hafliðadóttir, Hörður Rúnarsson og Andri Ómarsson fyrir framleiðslufyrirtækið Glassriver. Svörtu sandar hefur nú þegar verið seld til Kína, Ástralíu, Belgíu, Finnlands, Hollands og Indlands. Þáttaröðin er nú í sýningu hér á landi á Stöð 2 en með alþjóðlega sölu fer All3Media International.

Nánari upplýsingar um Berlinale kvikmyndahátíðina má finna á heimasíðu hátíðarinnar