Þorvaldur Davíð valinn í Shooting Stars 2023
Þorvaldur Davíð Kristjánsson hefur verið valinn í Shooting Stars hópinn árið 2023. Á hverju ári velja samtökin European Film Promotion (EFP) tíu unga og efnilega leikara og leikkonur, úr hópi aðildarlanda samtakana, sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi. Hópurinn verður kynntur sérstaklega á Berlinale kvikmyndahátíðinni sem fer fram dagana 16. til 26. febrúar 2023. Meðlimir EFP samtakanna eru kvikmynda- og kynningarmiðstöðvar frá 37 löndum og er Kvikmyndamiðstöð Íslands ein af þeim.
Átta konur og tveir karlar voru valdir í hópinn í ár, af 27 tilnefndum leikurum. Það er fjölþjóðleg dómnefnd sem velur hópinn, skipuð Jan Komasa frá Póllandi, Rebeccu van Unen frá Hollandi, Mariu Ekerhovd frá Noregi, Leo Barraclough frá Englandi og Veronicu Echegui, sem áður var í hópi Shooting Stars.
„Um leið og Þorvaldur Davíð birtist í kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svari við bréfi Helgu, stafar frá honum mikil útgeislun. Hann fangar fullkomlega hlutverk ástsjúks bónda sem verður heltekinn af ástríðu fyrir upprennandi skáldkonu,“ segir í umsögn dómnefndar EFP. „Í honum sameinast hraustlegt yfirbragð og viðkvæmni, sem laðar áhorfendur að honum og fær þá til að taka afstöðu með honum.“
Þorvaldur Davíð í hlutverki sínu í Svari við bréfi Helgu.
Þorvaldur Davíð lærði við hinn virta Juilliard-listaháskóla í New York. Hann útskrifaðist þaðan 2011, fyrstur Íslendinga, og naut meðal annars stuðnings styrktarsjóðs Robins Williams leikara á meðan náminu stóð. Ári eftir útskriftina fór hann með fyrsta aðalhlutverkið sitt í kvikmynd, í Svörtum á leik, og hlaut fyrir það tilnefningu til Edduverðlauna fyrir besta leik í aðalhlutverki. Árið 2020 hlaut hann Edduverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir sjónvarpsþáttaröðina Ráðherrann.
Myndirnar Vonarstræti og Ég man þig nutu mikilla vinsælda á Íslandi og hafa myndir sem hann hefur leikið í verið sýndar á virtum kvikmyndahátíðum. Þorvaldur Davíð hefur að auki talsett teiknimyndir. Skemmst er að nefna Já-fólkið, eftir Gísla Darra Halldórsson, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2021.
Þorvaldur Davíð hefur einnig notið velgengni sem sviðsleikari og leikið í uppfærslum í bæði Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Hann var tilnefndur til Grímuverðlauna, sem besti leikari í aðalhlutverki, fyrir frammistöðu sína í Furðulegu háttalagi hunds um nótt sem sýnt var í Borgarleikhúsinu.
Nýjasta kvikmynd hans, Svar við bréfi Helgu, sem frumsýnd var 2022 hefur hlotið jákvæð viðbrögð gagnrýnenda og áhorfenda. Var myndin nýverið sýnd á Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðinni í Eistlandi, sem er á meðal virtustu kvikmyndahátíða Evrópu.
Dæmi um þekkta leikara sem hafa verið í Shooting Stars eru meðal annars Maisie Williams (2015), Riz Ahmed (2012), Alicia Vikander (2010), Carey Mulligan (2009), Nikolaj Lie Kaas (2003), Daniel Brühl (2003) og Daniel Craig (2000).
Íslenskir leikarar sem áður hafa verið í Shooting Stars hópnum eru:
- Ingvar E. Sigurðsson 1999.
- Hilmir Snær Guðnason 2000.
- Baltasar Kormákur 2001.
- Margrét Vilhjálmsdóttir 2002.
- Nína Dögg Filippusdóttir 2003.
- Tómas Lemarquis 2004.
- Álfrún Örnólfsdóttir 2005.
- Björn Hlynur Haraldsson 2006.
- Gísli Örn Garðarsson 2007.
- Hilmar Guðjónsson 2012.
- Edda Magnason (íslensk/sænsk leikkona sem var valin fyrir hönd Svíþjóðar) 2014.
- Hera Hilmarsdóttir 2015.
- Atli Óskar Fjalarsson 2016.
- Krístín Þóra Haraldsdóttir 2019.
Nánari upplýsingar um Shooting Stars 2023 má finna á vef European Film Promotion .