Þrestir framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna
Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Þresti sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Þrestir mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.
Þrestir hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2015 til 30. september 2016.
Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp.
Rúnar Rúnarsson leikstýrir og skrifar handritið að Þröstum. Í helstu hlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Kristbjörg Kjeld. Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni og er Þrestir framleidd af Nimbus Ísland og Pegasus.
Þrestir hefur unnið til 20 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto síðastliðið haust. Þeirra á meðal eru Gullna Skelin fyrir bestu mynd á San Sebastian hátíðinni og verðlaun fyrir bestu mynd í 1-2 keppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá. Einnig er hún framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og er á meðal 50 mynda sem eru í forvali fyrir Evrópsku Kvikmyndaverðlaunin.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.
Nánari upplýsingar um Þresti og aðstandendur myndarinnar er að finna á Kvikmyndavefnum.