Um KMÍ
Á döfinni

8.11.2022

Þrjár íslenskar myndir í keppni á kvikmyndahátíðinni í Tallinn

Kvikmyndahátíðin Tallinn Black Nights Film Festival (PÖFF) í Eistlandi fer fram 11.-27. nóvember. Tallinn Black Nights er ein stærsta kvikmyndahátíðin í norðaustanverðri Evrópu og eru alls sýndar fimm íslenskar kvikmyndir á hátíðinni í ár.

Kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu, verður þar heimsfrumsýnd og tekur þátt í aðalkeppni hátíðarinnar. Svar við bréfi Helgu, í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, keppir um verðlaun í flokkinum Baltic Film og stuttmynd Hlyns Pálmasonar, Hreiður, tekur þátt í stuttmyndakeppni hátíðarinnar.

Auk þess eru Sumarljós og svo kemur nóttin, nýjasta kvikmynd Elfars Aðalsteins, og Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, sýndar á hátíðinni. Einnig er vert að minnast á heimildamynd Guy Davidi, Innocence, sem er norræn samframleiðsla með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

https://www.youtube.com/watch?v=Nd28_ET6pb4

Á ferð með mömmu segir frá miklum umskiptum sem verða í lífi manns eftir að móðir hans, og mesti áhrifavaldur, fellur frá. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.

Myndin er framleidd af Hlín Jóhannesdóttur fyrir Ursus Parvus og með aðalhlutverk fara Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Tómas Lemarquis og Hera Hilmars.

https://www.youtube.com/watch?v=MI4Mj7ii884

Svar við Bréfi Helgu byggist á samnefndri skáldsögu eftir Bergsvein Birgisson. Myndin fjallar um ungan bónda sem verður ástfanginn af konunni á næsta bæ. Þau hefja ástríðufullt, forboðið ástarsamband, og brátt fara tilfinningarnar að flæða jafn hömlulaust og hafið sem umkringir þau.

Framleiðendur myndarinnar eru Birgitta Björnsdóttir og Skúli Fr. Malmquist fyrir Zik Zak og Vintage Pictures. Með aðalhlutverk fara Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hera Hilmars og Aníta Briem.

https://www.youtube.com/watch?v=ETUDFqA-rCo

Sumarljós og svo kemur nóttin, í leikstjórn Elfars Aðalsteins, byggist á samnefndri bók eftir Jón Kalman Stefánsson. Sögusviðið er smáþorp á Íslandi og þar segir frá ungum forstjóra sem dreymir á latínu og fórnar fjölskyldu og glæstum frama fyrir gamlar bækur og stjörnukíki, heljarmenni sem kiknar undan myrkrinu, fínvöxnum syni hans sem tálgar mófugla, bónda sem strengir fallegar girðingar en ræður illa við fýsnir holdsins, einmana gröfukall sem skellir sér í helgarferð til London og gömlum Dodge 55.

Framleiðendur eru Heather Millard, Elfar Aðalsteins, Lilja Ósk Snorradóttir og  Ólafur Darri Ólafsson. Meðal aðalleikara í myndinni eru Sveinn Ólafur Gunnarsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Heida Reed og Ólafur Darri Ólafsson.

https://www.youtube.com/watch?v=PFIhZsQhy_4

Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Án eftirlits, leika strákarnir sér að valdbeitingu og ofbeldi en kynnast einnig djúpri vináttu.

Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir hönd Join Motion Pictures. Með helstu hlutverk fara Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson og Snorri Rafn Frímannsson, ásamt Anítu Briem, Ólaf Darra Ólafssyni og Ísgerði Gunnarsdóttur. 

https://www.youtube.com/watch?v=Fe0IYThGC_g

Hreiður er stuttmynd eftir Hlyn Pálmason sem segir frá systkinum sem byggja saman trjákofa. Í myndinni er fylgst með lífi þeirra og ferli í heilt ár í gegnum hamingju og þjáningu, vetur og sumar, ljós og myrkur. 

Framleiðendur eru Anton Máni Svansson fyrir íslenska framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir danska framleiðslufyrirtækið Snowglobe. Með hlutverk í myndinni fara Ída Mekkín Hlynsdóttir, Grímur Hlynsson og Þorgils Hlynsson.

https://www.youtube.com/watch?v=Aj7Px9TrVz4


Heimildamyndin Innocence er eftir ísraelska kvikmyndagerðarmanninn Guy Davidi. Myndin fjallar um ísraelsk ungmenni sem þvinguð eru til að gegna herskyldu. Hún byggist á 10 ára rannsóknarvinnu leikstjórans og varpar ljósi á samfélagslegar og persónulegar fórnir sem hervæðing hefur í för með sér.

Meðframleiðandi Innocence er Margrét Jónasdóttir hjá Sagafilm og styrkti Kvikmyndamiðstöð Íslands framleiðslu hennar. Aðalframleiðandi er Sigrid Jonsson Dyekjær hjá Danish Documentary Production.