Þrjár íslenskar myndir sýndar á Buster kvikmyndahátíðinni í Danmörku
Þrjár íslenskar myndir verða sýndar á Buster kvikmyndahátíðinni sem fer fram dagana 27. september til 10. október í Kaupmannahöfn, Danmörku. Buster er ein stærsta barna- og fjölskylduhátíðin í Skandinavíu og sýnir yfir 100 myndir sem ætlaðar eru börnum á aldrinum 3 - 16 ára.
Kvikmyndin Birta eftir Braga Þór Hinriksson verður sýnd undir fjölskylduþema hátíðarinnar, en myndin fjallar um hina 11 ára kraftmiklu en auðtrúa Birtu. Hún tekur málin í sínar hendur með ævintýralegum hætti þegar hún heyrir móður sína segja í hálfkæringi að það verði engin jól vegna blankheita.
Birta er skrifuð af Helgu Arnardóttur og leikstýrð af Braga Þór Hinrikssyni. Þau eru jafnframt framleiðendur myndarinnar fyrir H.M.S. Productions. Með aðalhlutverk fara Kristín Erla Pétursdóttir, Margrét Júlía Reynisdóttir, Salka Sól Eyfeld og Margrét Ákadóttir.
Þá eru tvær myndir, Skrímslabaninn eftir Þóreyju Mallhvíti H. Ómarsdóttur og Play! eftir Þórunni Hafstað sýndar í stuttmyndahluta hátíðarinnar undir heitinu Ofurhetjur.
Skrímslabaninn er skrifuð og leikstýrð af Þóreyju og framleiðendur hennar eru Heather Millard og Þórður Jónsson fyrir Compass Films.
Árið er 2038. Jöklar heimsins hafa bráðnað og landið er skorið í eyjar. Undan jöklunum skriðu þjóðsagnarverur og óvættir. Í þessum veðraða heimi býr hin unga og ólíklega hetja Ormhildur. Hún bjargar deginum þegar hún fellir næturtröll og leysir úr læðingi sína eigin galdratöfra.
Heimildamyndin Play! verður sýnd í 5 mínútna útgáfu í stuttmyndaflokknum og er myndin skrifuð og leikstýrð af Þórunni. Framleiðandi myndarinnar er Heather Millard hjá Compass Films.
Ímyndunarafl barna leiðir okkur inn í fantasíu leiksins, þar sem fullorðnir eru hvergi sjáanlegir og náttúran og ímyndunaraflið tekur yfir. Fyrr en varir, er leiktíma þó lokið og lögmál hinna fullorðnu nær yfirhöndinni - í þessu tilfelli með lokun þessa einstaka leikskóla vegna niðurskurðar.
Allar nánari upplýsingar um Buster kvikmyndahátíðina má finna á heimasíðu hátíðarinnar.