Um KMÍ
Á döfinni

8.9.2022

Tilnefningar til verðlauna ungra áhorfenda kynntar

Þrjár myndir – tvær leiknar og ein heimildamynd – eru tilnefndar til verðlauna ungra áhorfenda 2022 (Young Audience Award). Fjölbreyttur hópur kvikmyndasérfræðinga og ungmenna um alla Evrópu stendur að valinu.

Verðlaunin verða veitt á Verðlaunahátíð ungra áhorfenda, 13. nóvember, sem hægt verður að fylgjast með í beinu streymi á vef Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna . Hátíðin er fyrir alla krakka á aldrinum 12–14 ára. Þau börn sem taka þátt í hátíðinni mynda dómnefnd sem kýs sigurmyndina en þau geta átt samskipti við aðrar evrópskar dómnefndir daginn sem hátíðin fer fram fram í gegnum samfélagsmiðla og spjallrásir. 

Til að skrá sig er hægt að senda póst með nafni, kennitölu og netfangi á umsoknir@kvikmyndamidstod.is.

Eftirfarandi myndir eru tilnefndar í ár:

Animal – leikstjóri: Cyril Dion (Frakkland)

Heimildamynd um hlýnun jarðar. Bella og Vipulan ræða við vísindamenn og aðgerðarsinna um hvernig er hægt að lifa í meiri sátt og samlyndi við önnur dýr jarðarinnar.

 

Comedy Queen – leikstjóri: Sanna Lenken (Svíþjóð)

Sasha (13 ára) tekst á við sorgina eftir móðurmissi með því að gerast uppistandari. Myndin hefur farið sigurför um heiminn og vann meðal annars Kristalbjörninn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín í ár.

 

 

Dreams are like Wild Tigers – leikstjóri: Lars Montag (Þýskaland)

Ranji (12 ára) er nýfluttur frá Indlandi til Berlínar. Hans æðsti draumur er að flytja aftur til Indlands og verða Bollywood-stjarna, en nokkur ljón eru í veginum.

 

 

Afhending verðlaunanna ýtir úr vör Mánuði evrópskra kvikmynda sem nær hápunkti sínum í Reykjavík, 10. desember, þegar hátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fer fram.

Markmið hátíðarinnar er að bjóða börnum að kynnast evrópskri kvikmyndamenningu og sýna myndir sem endurspegla veruleika ungmenna um alla Evrópu. Eins er stefnt að því að kveikja áhuga barna á evrópskum sögum, fólki, menningu og hvetja til samkenndar, skilnings og umburðarlyndis. Kennsluefni fylgir með kvikmyndunum og því hægt að ræða þær og gera verkefni í kennslustundum. 

Fagfólk, kvikmyndagerðarmenn og kennarar stjórna umræðum á deginum, sem lýkur síðan með verðlaunaafhendingu þar sem börnin tilkynna niðurstöður kosninga hvers lands fyrir sig, í anda Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.