Um KMÍ
Á döfinni

20.10.2021

TÓNABÍÓ: Málþing um tónlist í kvikmyndum þann 2. nóvember

ÚTÓN, STEF, Tónlistarborgin Reykjavík, SÍK, Kvikmyndamiðstöð Íslands og RIFF kynna TÓNABÍÓ, málþing um tónlist í kvikmyndum.

Samstarfsaðilar í tónlist og kvikmyndum kynna Tónabíó, málþing um tónlist í kvikmyndum sem haldið verður 2. nóvember í Norræna Húsinu til að ræða framkvæmd tónsetninga á þáttum og kvikmyndum þar sem sífellt stærri verkefni eru nú framleidd héðan.

Margir af helstu sérfræðingum heims koma hingað til lands til að ræða við íslenska fagaðila í tónlist og kvikmyndum til að kynna hvernig þessar greinar geta best unnið saman. Tiltölulega nýleg en ævintýraleg velgengni íslenskra kvikmyndatónskálda á alþjóðamarkaði hefur undirstrikað hve verðmætur hluti tónlistar er í kvikmyndum og mikilvægi þess að skilja hvernig sú umgjörð fellur að framleiðsluferli kvikmynda.

Thomas Golubic, tónlistarráðgjafi sem er meðal annars þekktur fyrir vinnu sína við The Walking Dead, Alfons Karabuda, sem er forseti ECSA (European Composer and Songwriter Alliance) og forseti IMC (International Music Council), Tim Husom frá Redbird Music, sem meðal annars var umboðsmaður Jóhanns heitins Jóhannssonar, auk þess mun Steve Schnur ræða við Hildi Guðnadóttur en hann er yfirmaður tónlistar hjá Electronic Arts (EA) sem framleiddi tölvuleikinn Battlefield 2042 sem hún samdi tónlist fyrir og kom út á dögunum.

Aðrir dagskrárliðir eru pallborðsumræður þar sem fagaðilar ræða um það hvernig tónlist kemur inn í framleiðsluferli kvikmynda, en meðal þátttakenda verða:

- Valdís Óskarsdóttir, klippari og leikstjóri
- Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur
- Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikstjóri
- Silja Hauksdóttir, leikstjóri
- Jófríður Ákadóttir, kvikmyndatónskáld
- Herdís Stefánsdóttir, kvikmyndatónskáld
- Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri
- Ragnar Bragason, handritshöfundur og leikstjóri
- Tinna Proppé, framleiðandi
- Hrönn Kristinsdóttir, framleiðandi
- Viktor Orri Árnason, tónskáld

Málþingsstjóri verður Anna Hildur Hildibrandsdóttir; leikstjóri, framleiðandi og fyrrum framkvæmdastjóri ÚTÓN og NOMEX.

Miðasala fer fram á tix.is og eru takmörkuð sæti í boði. Verð er 2.900 kr.
Miðar: https://tix.is/is/event/12186/tonabio-mal-ing-um-tonlist-i-kvikmyndum/