UngRIFF sett í þriðja sinn
UngRIFF verður sett formlega í Smárabíó 24. september kl. 10:00. UngRIFF er kvikmyndahátíð á vegum RIFF, alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4-16 ára, og er ætlað að kynna fyrir þeim töfraheim kvikmyndanna og auka kvikmyndalæsi.
Þetta er í þriðja sinn sem UngRIFF er haldin. UngRIFF starfar allt árið um kring, í Reykjavík og á Landsbyggðinni, og býður m.a. upp á skólasýningar í leik- og framhaldsskólum og einnig stuðningsefni sem tengist myndunum.
500 nemendur og fræðandi sýningar
Um 500 nemendur í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins á aldrinum sex til þrettán ára koma saman á opnunarhátíðina. Opnunarmyndir hátíðarinnar verða myndin Stór í sniðum eftir Kristina Dufková (fyrir 6 ára og eldri), og Hunang eftir Natasha Arthy (fyrir 11 ára og eldri). Báðar myndirnar hafa unnið til verðlauna á alþjóðlegum barnakvikmyndahátíðum. Ólafur S.K. Þorvaldz leiklas myndina með Gunnari Árnasyni og Fríða Þorkelsdóttir þýddi yfir á íslensku.
KrakkaRÚV hlýtur heiðursverðlaun UngRIFF 2025
Birgir Dagur Bjarkarson verður kynnir á hátíðinni og veitir heiðursverðlaun UngRIFF árið 2025. Ungmennaráð hátíðarinnar valdi vinningshafann, en í ár hlýtur KrakkaRÚV verðlaunin fyrir framlag sitt til íslenskrar barnamenningar. Fulltrúar ungmennaráðs RIFF munu afhenda verðlaunin.