Uppfærðar leiðbeiningar um umsóknir um útborgun endurgreiðslu – framleiðendur hvattir til að kynna sér breytingar
Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur fyrir hönd nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu birt uppfærðar Leiðbeiningar vegna umsókna um útborgun endurgreiðslu. Markmið leiðbeininganna er að einfalda og hraða umsóknarferlinu, auka fyrirsjáanleika og auka samræmi og jafnræði í afgreiðslu umsókna. Uppfærðar leiðbeiningar byggja á framkvæmd nefndarinnar til þessa. Framleiðendur eru eindregið hvattir til að kynna sér leiðbeiningarnar áður en sótt er um útborgun endurgreiðslu á framleiðslukostnaði.
Nefndin vill jafnframt upplýsa að hún hefur leiðbeiningar vegna vilyrðisumsókna til endurskoðunar og má vænta uppfærðra leiðbeininga á næstu misserum.
Helstu atriði í uppfærðum leiðbeiningum
- Kröfur til fylgigagna skýrðar, þ.á.m:
- Staðfesting á skuldleysi, dagsett eigi fyrr en tveimur vikum fyrir dagsetningu umsóknar.
- Áritun stjórnar skal undirrituð af öllum stjórnarmönnum.
- Hreyfingalisti beint úr bókhaldskerfi.
- Skýr samræming kostnaðaruppgjörs og hreyfingalista.
- Framsetning kostnaðar tengdra aðila og innanhússkostnaðar.
- Skýr sundurliðun kostnaðar eftir löndum.
- Útreikningur stofns til endurgreiðslu: Skýringar á heildarframleiðslukostnaði, 80/20 reglunni og öðrum skilyrðum.
- Ítarlegar skýringar á mati á endurgreiðsluhæfum kostnaði
- Yfirbygging/stjórnunarkostnaður.
- Kostnaður tengdra aðila og markaðsvirði.
- Innanhússkostnaður framleiðslufyrirtækis.
- Laun og verktakagreiðslur – skattskylda á Íslandi.
- Lán milli tengdra aðila – markaðskjör og raunveruleg viðskipti.
- Erlendur kostnaður.
- Kostnaður utan framleiðslutímabils.
- Breyttar forsendur – upplýsingagjöf.
Hverjir ættu að lesa leiðbeiningarnar?
Allir aðilar sem hyggjast sækja um endurgreiðslu á framleiðslukostnaði á grundvelli laga nr. 43/1999 og reglugerðar nr. 450/2017, þar á meðal innlendir og erlendir framleiðendur, þjónustufyrirtæki og meðframleiðendur.
Hvar finn ég leiðbeiningarnar?
Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vef KMÍ: Leiðbeiningar vegna umsókna um útborgun endurgreiðslu.
Gildistaka
Leiðbeiningarnar eru byggðar á framkvæmd nefndarinnar til þessa og taka því gildi strax og gilda fyrir umsóknir sem berast héðan í frá. Umsækjendur sem eru í ferli eru hvattir til að yfirfara að gögn séu í samræmi við þær kröfur sem koma fram í leiðbeiningunum.