Um KMÍ
Á döfinni

26.3.2025

Veðurskeytin verður opnunarmynd Stockfish 2025

Opnunarmynd kvikmynda- og bransahátíðarinnar Stockfish 2025, sem fer fram 3.–13. apríl, er Veðurskeytin í leikstjórn Bergs Bernburg. Dagskrá hátíðarinnar var opinberuð í dag, 26. mars, og er hægt að kynna sér hana nánar á vef Stockfish.

Veðurskeytin er leikin heimildarmynd sem fjallar um stormasöm tímamót í lífi ástríðufulls fræðimanns; dramatísk vegferð inn á óþekkt svæði mannshugans. Doktor í norrænum fræðum frá Cambridge-háskóla, sem hefur unnið til mikilla afreka á sínu sviði, þarf skyndilega að endurskoða líf sitt þegar hann er greindur með geðhvörf. Hann þarf annað hvort að takast á við andleg veikindi sín á hefðbundinn hátt eða finna nýja leið til að lifa með nýjum áskorunum á eigin forsendum, með þeim veðrabrigðum sem vænta má.

Um er að ræða Íslandsfrumsýningu myndarinnar en hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam fyrr á þessu ári.

Ókeypis aðgangur að myndum hátíðarinnar

Aðgangur að sýningum á Stockfish er ókeypis í ár en gestum verður gefinn möguleiki á að styrkja hátíðina þegar miðar eru pantaðir.

Hátíðin verður að mestu haldin í Bíó Paradís í samstarfi við helstu fagfélög kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi, en að auki verður dagskrá í Hafnar.haus, Tónlistarmiðstöð og í Norræna húsinu.

Sérstök sýning til heiðurs Ásgeiri H Ingólfssyni

Sérstök söfnunarsýning á tékknesku kvikmyndinni Waves eftir Jirí Mádl verður haldin sunnudaginn 6. apríl klukkan 14.30 og rennur allur ágóði af seldum miðum látinn í sjóð tileinkaðan ævistarfi Ásgeirs H Ingólfssonar menningarrýnis.

Ásgeir féll frá skyndilega eftir stutt veikindi í janúar 2025. „Ásgeir H Ingólfsson var einstakur menningarrýnir og framlag hans til íslenskrar kvikmynda- og menningarumræðu almennt átti sér fáar hliðstæður,“ segir í tilkynningu Stockfish. Ásgeir var gagnrýnandi, blaðamaður, ljóðskáld, bókmenntafræðingur og hélt úti menningarblogginu Menningarsmygl frá Prag þar sem hann var búsettur.

Waves segir frá tveimur bræðrum sem flækjast inn í atburði í kringum hóp fréttamanna á alþjóðlegri ritstjórn tékkóslóvakíska útvarpsins á árunum 1967-1968. Persónur myndarinnar eru byggðar á raunverulegum meðlimum ritstjórnar International Life, undir forystu Milan Weiner.