Verbúðin vinnur til handritaverðlauna Norðurlandanna
Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Mikael Torfason unnu til verðlauna fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum fyrir sjónvarpsþáttaröðina Verbúðin. Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) stendur fyrir verðlaununum sem voru afhent á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í dag, miðvikudaginn 2. febrúar.
Verbúðin fjallar á dramatískan hátt um afleiðingar kvótakerfis fyrir lítið þorp, en Gísli Örn, Björn Hlynur og María Reyndal leikstýra þáttaröðinni. Framleiðendur eru Nana Alfredsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn og Björn Hlynur fyrir Vesturport.
Sex af átta þáttum hafa nú verið sýndir á RÚV, en þættirnir eru sýndir á sunnudagskvöldum.
Verðlaunaféð nemur u.þ.b. 20 þúsund evrum, en tilgangur Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er að efla framleiðslu norræns kvikmynda- og sjónvarpsefnis með því að taka þátt í lokafjármögnun bíómynda, sjónvarpsmynda og þáttaraða og skapandi heimildamynda.
Hér má lesa viðtal við þá Gísla, Björn og Mikael eftir að þeir voru tilnefndir til verðlaunanna.