Um KMÍ
Á döfinni

1.11.2022

Verðlaun Norðurlandaráðs afhent í kvöld – tvær myndir eftir íslenska leikstjóra tilnefndar

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs fer fram í Helsinki í Finnlandi í kvöld, 1. nóvember. Fimm norrænar myndir eru tilnefndar til verðlaunanna en í ár ber til tíðinda því þar af eru tvær myndir eftir íslenska leikstjóra, þá Valdimar Jóhannsson og Hlyn Pálmason, eru þar á meðal.

Kvikmynd Valdimars, Dýrið, er framlag Íslands til verðlaunanna í ár og framlag Danmerkur er Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, en framleiðslulönd hennar eru Danmörk, Ísland, Svíþjóð og Frakkland.

Síðast voru tvær myndir eftir íslenska leikstjóra tilnefndar á sama tíma árið 2018, þegar Kona fer í stríð, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, og Vetrarbræður, eftir fyrrnefndan Hlyn Pálmason, voru tilnefndar. Það ár bar Kona fer í stríð, framlag Íslands til verðlaunanna, sigur úr býtum.

Verðlaun Norðurlandaráðs eru ein virtustu verðlaun sem veitt eru á Norðurlöndum. Fimm verðlaun eru afhent á hátíðinni: Kvikmyndaverðlaun, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Árið 2022 er afmælisár því 20 ár eru frá því kvikmyndaverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn og bókmenntaverðlaunin, elst verðlaunanna fimm, fagna 60 ára afmæli.

Frekari upplýsingar um verðlaunin má finna á vef Norðurlandaráðs.