Um KMÍ
Á döfinni

22.5.2024

Verðlaunahafar Skjaldborgar 2024

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda lauk um hvítasunnuhelgi með afhendingu þrennra verðlauna. Í ár var hleypt af stokkunum nýjum verðlaunaflokki, sem ber heitið Skjaldan, og er helgaður heimildastuttmyndum. Kirsuberjatómatar eftir Rakel Andrésdóttur hlaut verðlaunin.

Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar hafa verið veitt frá stofnun hátíðarinnar 2017. Í ár hlaut Fjallið það öskrar, í leikstjórn Daníels Bjarnasonar, verðlaunin. Myndin fjallar um snjóflóðið á Súðavík 1995. Í henni eru sagðar sögur þriggja einstaklinga sem upplifðu hamfarirnar frá mismunandi sjónarhornum.

Anton Smári Gunnarsson, Daníel Bjarnason, Þórunn Guðlaugsdótttir.

Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar, hlaut heimildamyndin Kúreki norðursins: sagan af Johnny King. Leikstjóri myndarinnar er Árni Sveinsson. Myndin segir frá íslenskum kántrý-söngvara sem er á krossgötum í lífi sínu og gerir eina lokatilraun til að fara aftur á bak.

Andri Freyr Viðarsson, Árni Sveinsson.

Umsögn dómnefndar:

Myndin nálgast sársaukafulla reynslu af hugrekki og virðingu. Hún vinnur á aðdáunarverðan hátt með væntingar áhorfenda og sagan öðlast dýpri merkingu þegar viðfangsefnið nær óvænt valdi á eigin sögu. Áhorfandinn er skilinn eftir með stórar spurningar um áhrif áfalla, velgengi, karlmennsku og ekki síst leitina að hamingjunni.

Skjölduna, hin nýju verðlaun hátíðarinnar, hlaut heimildastuttmyndin Kirsuberjatómatar eftir Rakel Andrésdóttur. Myndin fjallar um sumar eitt sem höfundurinn var sendur í sveit til að tína og flokka kirsuberjatómata.

Rakel Andrésdóttir.

Umsögn dómnefndar:

Sigurstuttmyndin dregur upp ljúfsára og skýra mynd af tímabili sem áhorfendur eiga auðvelt með að spegla sig í. Nálgunin er stílhrein, tilgerðarlaus og berskjaldandi og næm útfærsla höfundar hentar viðfangsefninu sérstaklega vel.