Um KMÍ
Á döfinni

16.11.2022

Verðlaunahafar á Northern Wave International Film Festival

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave fór fram í fjórtánda sinn helgina 11.-13. nóvember i í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ.

Verðlaunahafar voru eftirfarandi:

Besta íslenska stuttmyndin - Days without eftir Ívar Erik Yeoman.

Besta alþjóðlega stuttmyndin - Single Horn eftir Mohamad Kamal Alavi (Íran).

Besta íslenska tónlistarmyndbandið - Spurningar, Birnir ft. Páll Óskar, leikstjóri: Magnús Leifsson.

Special mention - Scale eftir Joseph Pierce (Frakkland).

Verðlaunagripir voru hannaðir af Lavaland, Grundarfirði.

Rúmlega tuttugu norrænar kvikmyndagerðarkonur tóku þátt í vinnustofu á vegum hátíðarinnar undir yfirskriftinni Norrænar Stelpur Skjóta. Hópurinn samanstóð af einum leiðbeinanda og tveimur þátttakendum frá hverju landi, það er, Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi.

Markmiðið með vinnusmiðjunni var að valdefla og styrkja tengslanet ungra norrænna kvenna í kvikmyndagerð sem eru að stíga sín fyrstu skref en mikið brottfall er af konum í faginum um alla Evrópu. Með sterkara tengslaneti, eiga þessar ungu kvikmyndagerðarkonur meðal annars auðveldara með að fjármagna verkefni sín með samnorrænum framleiðslum og sjóðum.

Á hátíðinni sjálfri voru sýndar stuttmyndir hvaðanæva að úr heiminum auk íslenskra tónlistarmyndbanda. Sýningarnar fóru fram í Frystiklefanum á Rifi annarsvegar og í sundlauginni í Ólafsvík hinsvegar. 

Heiðursgestur hátíðarinnar var Einar Snorri ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður og hluti af tvíeykinu Snorri Bros en Einar Snorri sýndi stutta heimildarmynd um uppfinningu hans og Eiðs Snorra sem gengur undir nafninu Snorri Cam og hefur verið notað í tugi alþjóðlegra kvikmynda (Spiderman, Blond, James Bond, Requiem for a Dream og Armageddon) tónlistarmyndbanda og var fyrst notuð í kvikmyndinni Pi eftir Darren Aronofsky. Á laugardagskvöldinu hélt rapparinn Emmsjé Gauti tónleika fyrir gesti hátíðarinnar og íbúa í Snæfellsbæ. 

Ljósmyndir: Regina Mosch