Um KMÍ
Á döfinni

11.10.2021

Verðlaunahafar á RIFF 2021

Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, lauk um helgina. Laugardaginn 9. október fór fram verðlaunaafhending hátíðarinnar og þar hlaut fransk-gríska kvikmyndin Moon, 66 Questions eftir Jacqueline Lentzou Gyllta lundann, aðalverðlaun hátíðarinnar í ár. 

Alls voru veitt sex verðlaun, þar á meðal hlaut Frjálsir menn (Frie Mænd) eftir Óskar Kristin Vignisson verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina. Verðlaun unga fólksins voru veitt í fyrsta sinn en einnig voru veitt sérstök NFT samhliða hverjum verðlaunagrip og er RIFF þarmeð fyrsta kvikmyndahátíð veraldar til að stíga inn í stafræna metaheiminn.

Í umsögn dómnefndar um vinningsmyndina Moon, 66 Questions segir: Moon, 66 Questions er verk sem dregur upp marglaga og heillandi mynd af ást og sáttum, leyndarmálum og sársakafullum sannleika, fjölskyldutengslum og seinunnu frelsi. Kvikmynd sem er ekki hrædd við að taka áhættu, í senn beitt og einlæg, leikstýrt með sérstæðri sýn og ljáð lífi með hugrökkum og hrífandi leikframmistöðum.“

Gyllti lundinn er veittur í keppnisflokknunum Vitrunum, sem samanstendur af fyrstu eða annarri kvikmynd leikstjóra. Dómnefnd Vitrana skipuðu Trine Dyrholm, leikkona og heiðursgestur RIFF, Yorgos Krassakopoulos, dagskrárstjóri alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Þessalóníku, Gagga Jónsdóttir, kvikmyndagerðarkona, Aníta Bríem, leikkona, og Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri.

Úr keppnisflokknum Vitrunum hlutu einnig sérstaka viðurkenningu dómnefndar kvikmyndirnar Wild Men (Vildmænd) eftir Thomas Daneskov og Clara Sola eftir Nathalie Álvarez Mesén. Clara Sola hlaut einnig útnefningu Dómnefnd unga fólksins.

Verðlaun í dagskrárflokknum Önnur framtíð hlaut Zinder eftir Aicha Macky. Flokkurinn Önnur framtíð saman stendur af heimildamyndum sem fjalla á einn eða annan hátt um umhverfis- og/eða mannréttindamál.

Eftirsjón eftir Björn Rúnarsson var valin besta íslenska nemamyndin og Síðasti séns eftir Ástu Sól Kristjánsdóttur hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar í þeim flokki.

Verðlaun sem besta mynd í flokki alþjóðlegra stuttmynda hlaut Strangers eftir Nora Longatti en sérstaka viðurkenningu dómnenfda í sama flokki hlaut State of Elevation eftir Isabelle Prim. Verðlaun Gullna Eggsins, stuttmynda þátttakenda kvikmyndasmiðju RIFF „Talent Lab“. hlaut Drowning Goat eftir Sebastian Johansson Micci.

Allar nánari upplýsingar um verðlaunahafa hátíðarinnar í ár má finna hér