Um KMÍ
Á döfinni

11.10.2022

Verðlaunahafar á RIFF 2022

RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, lauk með verðlaunaathöfn og viðhafnarsýningu á kvikmynd Elfars Aðalsteinssonar, Sumarljósi og svo kemur nóttin, laugardaginn 8. október.

Franska kvikmyndin Rodeo, í leikstjórn Lolu Quivoron, hlaut gyllta lundann, aðalverðlaun hátíðarinnar. Verðlaunin eru veitt leikstjóra í flokknum Vitranir fyrir fyrsta eða annað verk. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé frumleg, djörf og komi í sífellu á óvart.

Haley Gray hlaut Gullna eggið fyr­ir kvik­mynd­ina Send the Rain. Að mati dóm­nefnd­ar tókst leik­stjór­an­um að segja sög­una á mjög skýr­an, ein­fald­an en kraft­mik­inn hátt.

Að elta fuglinn eftir Unu Lorenzen var kosin besta íslenska stuttmynd hátíðarinnar. „Dómnefndin hreifst af því hvernig leikstjóranum tókst að draga áhorfendur inn í söguna sem og hvernig henni tókst að halda athygli áhorfenda með því að skapa heim sem sjónarhorn til að segja söguna.“

Þá hlaut stuttmynd Elínar Pálsdóttur, Fyrir hönd keisarans, verðlaun í flokki stuttmynda nemenda og Sá sem fór suður, eft­ir Steiní Krist­ins­son, fékk sér­staka viður­kenn­ingu í sama flokki.

Í flokki alþjóðlegra stutt­mynda var mynd­in Exalted Mars, eft­ir Jean Sé­bastien Chau­vin, val­in sú besta. „Ef kvikmyndahúsið er rými drauma og þrár, þá á þessi mynd mjög vel heima í myrkrinu,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar. „Hún er náttúruleg í myndmáli sínu, dáleiðandi í hreinskilni sinni og dásamleg í nánast öllu öðru. Myndin býður okkur að varpa eigin innri kvikmyndum á dökkan striga kvikmyndatjaldsins.“

Kvik­mynd­in Eternal Spring, eft­ir Ja­son Loft­us, hlaut verðlaun dóm­nefnd­ar unga fólks­ins. Myndin bar af öðrum í flokknum að mati dómnefndar. „Myndin snýst um ofsóknirnar sem meðlimir Falun Gong standa frammi fyrir og lýsir í kjölfarið upp illa meðferð á öðrum trúar- og minnihlutahópum í Kína sem og í öðrum heimshlutum.“

Kvik­mynd­in A Marble Travelogue, eft­ir Sean Wang, hlaut verðlaun í flokknnum Önnur framtíð. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: „Með framúrskarandi myndmáli skoðar leikstjórinn af mikilli dýpt sambandið á milli tveggja ólíkra menningarheima. Einstök fagurfræðilegri nálgun og hárfínn húmor gera það að verkum að við horfum dáleidd og bíðum spennt eftir næstu senu, senu eftir senu, myndina á enda.“