Um KMÍ
Á döfinni

20.4.2022

Hvað á streymisveita íslenskra kvikmynda að heita?

Kvikmyndamiðstöð Íslands undirbýr opnun streymisveitu til að bæta aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi. Markmið veitunnar er að bjóða almenningi heima og erlendis upp á fjölbreytt úrval íslenskra kvikmyndaverka – bíómyndir, heimildarmyndir og stuttmyndir.

Streymisveitan er hugsuð sem þjónusta þar sem hægt verður að nálgast myndir sem yfirleitt eru ekki fáanlegar annars staðar. Greitt er fyrir áhorf á hverri mynd og í flestum tilvikum verður um eldri verk að ræða. Greiðslur renna til rétthafa, að frádregnum útlögðum kostnaði.

Streymisveitan verður tengd „veituleit“ á Kvikmyndavefnum , þar sem finna má upplýsingar um hvar hægt er að nálgast íslensk kvikmyndaverk, innanlands og erlendis. Þannig verður hægt að finna þær myndir sem ekki eru á streymisveitunni á hverjum tíma.

Nú leitum við til ykkar varðandi hugmyndir að nafni streymisveitunnar. Það þarf að vera stutt og þjált og helst þannig að það gangi á bæði íslensku og ensku.

Dómnefnd velur vinningstillöguna.

Höfundur vinningstillögunnar fær árskort í Bíó Paradís fyrir tvo.