Um KMÍ
Á döfinni

20.6.2022

Viðamikil kvikmyndadagskrá á íslenskri menningarviku í París

Dagana 23.-26. júní verður íslensk menning í hávegum höfð í París, á Íslensku vikunni (La semaine islandaise), þar sem kynning á kvikmyndum, bókmenntum, tónlist og matargerð fer fram í menningarhúsinu L'Entrepôt.

 Listræn stjórn hátíðarinnar er í höndum Frédéric Boyer en hann hefur verið listrænn stjórnandi Les Arcs-hátíðarinnar í Frakklandi frá upphafi og einnig hjá Tribeca hátíðinni í New York sl. áratug. Auk þess var hann listrænn stjórnandi Directors Fortnight hlutans á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Hátíðin er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í París, Íslandsstofu, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Les Arcs- hátíðarinnar í Frakklandi. Hún er unnin innan ramma markaðsverkefnisins Skapandi Íslands sem rekið er af Íslandsstofu í samstarfi við utanríkisráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og miðstöðvar lista og skapandi greina.  

Kvikmyndadagskráin er vegleg, með áherslu á höfundarverk Sólveigar Anspach, en einnig verða nýlegar íslenskar kvikmyndir sýndar, auk heimildamynda og stuttmynda, svo sem Volaða land eftir Hlyn Pálmason, Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og Kaf eftir Elínu Hansdóttur, Hönnu Björk Valsdóttur og Önnu Rún Tryggvadóttur. Heiðursgestur er Benedikt Erlingsson og verða kvikmyndir hans, Hross í oss, Kona fer í stríð og stuttmyndin Takk fyrir hjálpið, einnig sýndar. 

Hægt er að kynna sér dagskrána hér .