Viðtal við Hlyn Pálmason: „Þau eru eins og fjölskyldan mín“
Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land eða Vanskabte land , var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í síðustu viku í flokki Un Certain Regard. Myndin, sem hefur fengið mikið lof gagnrýnenda, gerist undir lok 19. aldar og segir frá dönskum presti sem fær það verkefni að reisa kirkju á Íslandi. Presturinn ungi, sem Elliot Crosset Hove leikur, hefur einnig hug á að ljósmynda íbúa eyjunnar á ferðalaginu. Förin reynist honum hins vegar mikil þrekraun og samband hans við rysjóttan leiðsögumann, sem Ingvar Sigurðsson leikur, sömuleiðis.
Hlynur ræddi við Wendy Mitchell, blaðamann, í Cannes daginn sem myndin var frumsýnd.
Volaða land er stórbrotið ferðalag um náttúru Íslands þar sem leiðarstefið er samskipti tveggja þjóða og misskilningurinn sem getur orðið til á milli ólíkra tungumála. Hlynur bjó í Danmörku um skeið, þar sem hann lærði leikstjórn við Danska kvikmyndaskólann. „Ég vildi vinna með þá tvo staði sem ég þekki svo vel. Ég er mótaður af bæði Danmörku og Íslandi. Ég vildi gera mynd sem fjallar um sameiginlega sögu okkar, sem er svo rík. Það er ekki það langt liðið síðan við vorum undir danskri krúnu. Þetta er merkingarþrungið og margt hægt að kanna.“
Það eru mörg kunnugleg andlit í leikarahópi myndarinnar. Volaða land er þriðja myndin sem Hlynur og Ingvar Sigurðsson gera saman og Eliott Crosset Hove og Vic Carmen Sonne fóru einnig með hlutverk í Vetrarbræðrum, fyrstu kvikmynd Hlyns í fullri lengd. Ída Hlynsdóttir, dóttir leikstjórans, leikur einnig í myndinni, en hún vakti mikla eftirtekt fyrir frammistöðu sína í Hvítum, hvítum degi, sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2019.
Ída Mekkín Hlynsdóttir og Vic Carmen Sonne í Voluðu landi.
„Ég kann vel við að dýpka sambandið við þau,“ segir Hlynur um leikarahópinn. „Ég færi létt með að gera myndir með þeim út ævina, myndir um það sem ég hef áhuga á, um fjölskyldur og umhverfi þeirra. Mér líður samt eins og ég sé bara að klóra í yfirborðið. Þau hvetja mig til að skrifa og ég veit að ég get ýtt þeim lengra. Það er alltaf gott að hafa einhvern sem hægt er að skrifa til og færa eitthvað fram sem þau hafa áhuga á að kanna frekar með þér, það myndast við það ákveðin orka. Þau eru eins og fjölskyldan mín.“
Áætlað er að Volaða land verði frumsýnd á Íslandi í haust.