Um KMÍ
Á döfinni

10.3.2023

Volaða land á hringferð um Ísland

Volaða Land, kvikmynd Hlyns Pálmasonar er frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins 10. mars.

Í framhaldi frumsýningarinnar heldur leikstjóri myndarinnar ásamt aðalleikurunum, þeim Ingvari E. Sigurðssyni og Elliott Crosset Hove, í hringferð um landið með myndina. Þar gefst áhorfendum á Ísafirði, Patreksfirði, Akureyri og Seyðisfirði, kostur á að ræða við leikstjórann og leikarana að sýningum loknum.

Sýningarnar fara fram þann 10. mars í Ísafjarðarbíói kl. 20, þann 11. mars í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði kl. 12 að hádegi og í Sambíóunum á Akureyri um kvöldið kl. 20, og að lokum þann 12. mars í Herðubíói á Seyðisfirði kl. 20. 

Volaða land er þriðja kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd. Myndin segir frá ungum dönskum presti sem ferðast til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda náttúruna og íbúa landsins. Hópur heimamanna leiðir unga prestinn yfir harðneskjulegt landið. Þegar líður á ferðalag þeirra missir presturinn smám saman tökin á raunveruleikanum og eigin trúfestu.

Myndin hefur ferðast á milli virtustu kvikmyndahátíða heims síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes vorið 2022 og hlotið mikið lof gagnrýnenda í Frakklandi, Danmörku og Bandaríkjunum.