Volaða land á kvikmyndahátíðinni í Telluride
Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Telluride sem hefst í dag.
Hátíðin fer fram í Colorado í Bandaríkjunum og hefur markað sér sérstöðu sem mikilvægur viðkomustaður kvikmynda áður en verðlaunatímabilið gengur í garð þar í landi.
Þrjátíu og níu kvikmyndir eru sýndar á hátíðinni í Telluride í ár, en auk kvikmyndar Hlyns verða tvær myndir sem Hildur Guðnadóttir semur tónlistina fyrir sýndar þar: Tár, eftir Todd Field, og Women Talking, eftir Söruh Polley. Hildur hefur þegar verið orðuð við Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í Tár , sem vakti mikla hrifningu á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir skemmstu.
Volaða land hefur verið sýnd á fjölda virtra kvikmyndahátíða síðan hún var heimsfrumsýnd í Cannes í vor. Má þar nefna Karlovy Vary í Tékklandi, San Sebastian á Spáni og alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Transilvaníu í Rúmeníu. Nýverið var tilkynnt að myndin verður sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og á kvikmyndahátíð BFI í London, þar sem hún keppir um verðlaun sem besta myndin.