Um KMÍ
Á döfinni

18.8.2022

Volaða land og Berdreymi í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Kvikmyndirnar Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, og Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, eru á meðal 30 kvikmynda sem eru í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2022. Verðlaunahátíðin fer fram í Reykjavík 10. desember.

Berdreymi var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar og hlaut þar Europa Cinemas Label verðlaunin sem besta evrópska myndin í Panorama flokki. Síðan hefur myndin ferðast á milli hátíða víða um heim og unnið til fjölda verðlauna.

https://www.youtube.com/watch?v=PFIhZsQhy_4

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem á skyggna móður. Hann og vinir hans alast upp án eftirlits og nota slagsmál til að leysa ágreininga. Einn daginn ákveður Addi að taka vinalausan strák undir sinn verndarvæng. Djúp vinátta myndast á milli strákanna en ögrandi hegðun þeirra leiðir þá í lífshættulegar aðstæður. Draumkenndar sýnir byrja þá að birtast Adda. Mun nýfengið innsæi hans verða honum og vinum hans leiðarljós í átt að betra lífi eða munu þeir sökkva lengra inn í heim ofbeldis?

Volaða land var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí og hlaut þar mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Nýlega var tilkynnt að myndin yrði sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, einni stærstu og virtustu kvikmyndahátíð Norður Ameríku. Volaða land verður frumsýnd á Íslandi í vetur.

https://www.youtube.com/watch?v=_72WOvp9VU8

Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru afhent annað hvert ár við hátíðlega athöfn í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Í þetta sinn fer hátíðin fram í Reykjavík, 10. desember. Upphaflega stóð til að hún færi fram hér á landi árið 2020 en var frestað vegna heimsfaraldursins.

Nánari upplýsingar um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin má finna á vef EFA .