Um KMÍ
Á döfinni

9.1.2023

Volaða land og Berdreymi tilnefndar til Robert-verðlaunanna

Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, og Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, eru tilnefndar til Robert-verðlaunanna sem Danska kvikmyndaakademían veitir.

Volaða land er tilnefnd til 10 verðlauna, þar á meðal sem mynd ársins, fyrir leikstjórn, handrit og aðalhlutverk (Elliott Crosset Hove og Vic Carmen Sonne), á meðan Berdreymi er tilnefnd í flokkinum mynd ársins á öðru tungumáli en ensku. Stuttmynd Hlyns Pálmasonar, Hreiður, er einnig tilnefnd sem stuttmynd ársins.

Auk fyrrgreindra tilnefninga er Volaða land tilnefnd fyrir förðun ársins (Katrine Tersgov), búningahönnun ársins (Nina Grønlund), klippingu ársins (Julius Krebs Damsbo), leikara ársins í aukahlutverki (Jacob Lohmann) og kvikmyndatöku ársins (Maria von Hausswolff).

Fyrsta mynd Hlyns í fullri lengd, Vetrarbræður, var sigursælust á hátíðinni 2018 þar sem hún sópaði að sér alls níu Robert-verðlaunum, þar á meðal sem mynd ársins og fyrir leikstjórn ársins.

Robert-verðlaunin verða afhent 4. febrúar í Kaupmannahöfn.