Um KMÍ
Á döfinni

24.10.2022

Volaða land og My Year of Dicks vinna til verðlauna í Chicago

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, vann til tvennra verðlauna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago sem fór fram 12.-23. október.

Myndin vann aðalverðlaun hátíðarinnar, Golden Hugo verðlaunin, sem besta myndin. Í umsögn dómnefndar segir að í myndinni sé tekist á við flókin þemu, eins og nýlendustefnu og trúarbrögð. Hlynur, ásamt hugdjörfum leikhópi, hafi lagt í nánast fordæmalaust ferðalag í kvikmynd sem kortleggur margbrotið sálarlíf manns, sem kann að óttast guð sinn og vill breyta rétt en þarf dag hvern að takast á við grunnhvatir sínar.

Volaða land fékk einnig verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna, en hún er í höndum Mariu von Hausswolff. Dómnefndin segir að Hausswolff takist að fanga harðneskjulegt landslagið á undraverðan hátt og af miklu listfengi.

Teiknimyndasería Söru Gunnarsdóttur, My Year of Dicks, hlaut einnig verðlaun á hátíðinni. Í umsögn dómnefndar segir að þátturinn skeri sig úr með blæbligðaríkum teiknistíl og það blási ferskir vindar í frásögn af vandræðabrag gelgjuskeiðsins.

Á vef hátíðarinnar má finna frekari upplýsingar um verðlaunin ásamt umsögnum dómnefnda.