Um KMÍ
Á döfinni

27.3.2023

Volaða land sigursæl á verðlaunahátíð danskra kvikmyndagagnrýnenda – Ingvar E. Sigurðsson besti leikarinn

Volaða land, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, vann flest verðlaun á Bodil-verðlaunahátíðinni sem fram fór í Danmörku á laugardaginn. Það eru samtök danskra kvikmyndagagnrýnenda sem afhenda verðlaunin ár hvert til að heiðra afrek í danskri og erlendri kvikmyndagerð.

Myndin var tilnefnd til fimm verðlauna og hlaut þar af þrenn. Elliott Crosset Hove fyrir leik í aðalhlutverki, Ingvar E. Sigurðsson fyrir leik í aukahlutverki og Maria von Hausswolff fyrir kvikmyndatöku. 

Ída Mekkín Hlynsdóttir var tilnefnd fyrir besta leik í aukahlutverki og var myndin auk þess tilnefnd sem besta danska kvikmyndin.

Volaða land er þriðja kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022, þar sem hún keppti um Un Certain Regard verðlaunin. Hún var valin besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðunum í Chicago í Bandaríkjunum, í Riga í Lettlandi og í Lübeck í Þýskalandi, svo dæmi séu nefnd. Þá hlaut hún einnig sérstaka viðurkenningu dómnefndar á BFI London Film Festival og var Ingvar E. Sigurðsson valinn vesti leikarinn Festival de Cine í Gáldar á Spáni.

Myndin var nýverið frumsýnd á Íslandi og hlaut hún alls 11 tilnefningar á verðlaunahátíð Eddunnar, þaðan sem Hlynur Pálmason og Maria von Hausswolff fóru heim með verðlaunagrip fyrir bestu leikstjórn og kvikmyndatöku.