Warner Bros. í Þýskalandi í samvinnu við Night Train Media tryggja sér réttinn að Siglufjarðarseríu Ragnars Jónassonar
Fyrir stuttu greindi Variety frá því að Warner Brothers International Television Production (WBITVP) í Þýskalandi, í samframleiðslu við Night Train Media, hafi tryggt sér alþjóðlegan rétt á glæpaskáldsögum Ragnars Jónassonar.
Um er að ræða Siglufjarðarseríu Ragnars sem er vel kunnug Íslendingum, en sögurnar eru sex talsins og fjalla um um lögreglumanninn Ara Þór Arason. Í grein Variety þar sem vitnað er í Ragnar segir að hann hlakki mikið til samstarfsins og að sjá sögurnar um Ara Þór lifna við á skjánum.
Bækur Ragnars hafa komið út í yfir 33 löndum og selst í yfir tveimur og hálfri milljón eintaka, en Siglufjarðarsería hans kom út á árunum 2010 til 2020. Bernd von Fehrn, framkvæmdastjóri handrita hjá WBITVP í Þýskalandi, segir þau vera einkar ánægð með að hafa tekist að sannfæra Ragnar um sýn þeirra á aðlögun seríunnar þar sem þau telja hann einn af mest spennandi höfundum glæpasagna á alþjóðavísu. Að auki greina Herbert L. Kloiber forstjóri og Olivia Pahl þróunar- og samframleiðslustjóri hjá Night Train Media, frá því að „Norrænar spennumyndaþáttaraðir hafa verið mjög vinsælar í mörg ár og það er ekki að ástæðulausu.”
Grein Variety í heild sinni má lesa hér.