Um KMÍ
Á döfinni

23.6.2022

Yrsa Roca Fannberg í dómnefnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary – þrjár íslenskar myndir á dagskrá

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary í Tékklandi hefst 1. júli og stendur yfir til 9. júlí. 

Í ár eru þrjár íslenskar kvikmyndir sýndar á Karlovy Vary: Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og Volaða land eftir Hlyn Pálmason, auk stuttmyndarinnar Hreiður.

Yrsa Roca Fannberg, kvikmyndagerðarkona, situr í dómnefnd í nýjum keppnisflokki hátíðarinnar sem nefnist Proxima.

Proxima-flokkurinn leysir East of the West hluta hátíðarinnar af, sem stofnaður var á 10. áratugnum með það að leiðarljósi að vekja athygli á kvikmyndagerðarfólki Austur-Evrópu. Sú breyting hefur orðið á að nú er flokkurinn, undir nýju heiti, opinn kvikmyndum hvaðanæva að úr heiminum, bæði leiknum myndum og heimildamyndum.

Kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary er ein sú elsta í heiminum og einn helsti kvikmyndaviðburður mið- og austur-Evrópu. Það er því mikill heiður að sitja í dómnefnd á hátíðinni.

Heimildamynd Yrsu Roca Fannberg, Síðasta haustið, var sýnd á hátíðinni 2019.