LJÓSMÁL
Einar Þór Gunnlaugsson
Saga íslenska vitans er ung, en það var ekki fyrr en árið 1878 sem fyrsti vitinn við strendur Íslands var byggður. Það var á suðvesturhorni landsins, nánar til tekið á Valahnúk á Reykjanesi. Uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Það voru viðskiptasjónarmið þeirra sem ráku verslunarskip sem sigldu milli Íslands og Evrópu sem kom vitavæðingunni á rekspöl, en vissulega var dramatískur mannskaði íslenskra sjómanna við strendur landsins hvatning til að bæta öryggi allra sjómanna til muna. Eini vitinn sem byggður er af einkaaðila er vitinn á Dalatanga, milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Vitinn er sá elsti sem enn stendur. 1. desember 2003 var þess minnst að 125 ár voru liðin frá því fyrst blikkaði vitaljós á Íslandsströndum. Við það tilefni voru fyrstu sjö vitar landsins friðaðir. Með vitavæðingunni má líka segja að iðnbyltingin hafi komið til Íslands, en bygging vita krafðist nýrra verkkunnáttu og notkun steinsteypu t.d. hófst hér á landi með byggingu vita. Einnig fengu hönnuðir og arkitektar tækifæri til að láta ljós sitt skýna og ber fjöldi vita merki um áhrif þeirra á íslenska byggingalist. Nú eru ljósvitar á Íslandi alls 104 að tölu en þá er ótalinn fjöldi innsiglingar- og hafnarvitar í eigu og umsjá sveitarfélaga.
Titill: Ljósmál
Tegund: Heimildamynd
Leikstjóri: Einar Þór Gunnlaugsson
Handrit: Kristján Sveinsson
Framleiðandi: Dúi J. Landmark
Framleiðslufyrirtæki: Landmark kvikmyndagerð
Styrkt af: Kvikmyndamiðstöð Íslands
Framleiðsluland: Ísland
Lengd: 60-70 mínútur
Upptökutækni: 4 K
KMÍ styrkir fyrir verkefnið:
Þróunarstyrkur 2014 kr. 900.000
Framleiðslustyrkur 2016 kr. 10.500.000