Um KMÍ
Á döfinni

15.6.2018

Andið eðlilega valin á Karlovy Vary kvikmyndahátíðina

Andið eðlilega, fyrsta kvikmynd Ísoldar Uggadóttur í fullri lengd, hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi. Myndin mun taka þátt í  „Another View“  hluta hátíðarinnar. Hátíðin, sem fer fram í 53. skipti í ár, hefst 29. júní og mun standa yfir fram til 7. júlí. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary er ein sú elsta í heiminum og er ein fárra svokallaðra „A“ hátíða. Er það því mikill heiður að vera valin til þátttöku á hátíðinni.

Andið eðlilega var heimsfrumsýnd á hinni virtu Sundance kvikmyndahátíð í Bandaríkjunum, þar sem Ísold Uggadóttir var valin besti erlendi leikstjórinn. Skömmu síðar tók myndin þátt á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð, þar sem myndin vann FIPRESCI verðlaun hátíðarinnar. Verðlaunin eru veitt af FIPRESCI sem eru alþjóðleg samtök kvikmyndagagnrýnenda.

Á síðustu árum hafa íslenskar kvikmyndir verið sigursælar á hátíðinni. Árið 2015 voru þrjár íslenskar kvikmyndir valdar til þátttöku á hátíðinni; Hrútar eftir Grím Hákonarsonar, Fúsi eftir Dag Kára og stuttmyndin Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarsson. Árið 2014 fyrra var París norðursins eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson valin til þátttöku í aðalkeppni hátíðarinnar og XL, kvikmynd Marteins Þórssonar var sömuleiðis valin til þátttöku í aðalkeppninni árið 2013, þar sem Ólafur Darri Ólafsson var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni. Árið 2007 hlaut Mýrin eftir Baltasar Kormák Kristalshnöttinn, aðalverðlaun hátíðarinnar.

Nánari upplýsingar um hátíðina og valið má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Um myndina

Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.

Ísold Uggadóttir er eins og áður segir leikstjóri og einnig handritshöfundur myndarinnar. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo.

Skúli Fr. Malmquist framleiðir Andið eðlilega fyrir hönd Zik Zak kvikmynda, en meðframleiðendur eru þær Inga Lind Karlsdóttir, Lilja Ósk Snorradóttir og Birna Anna Björnsdóttir, auk meðframleiðenda frá Belgíu og Svíþjóð. 

Andið eðlilega var frumsýnd á Íslandi 2. mars síðastliðinn og er núna í sýningum í Bíó Paradís með enskum texta.

The Match Factory sér um sölu og dreifingu á heimsvísu.