Um KMÍ
Á döfinni

11.11.2022

Dómnefndir ungra áhorfenda skera úr um hvaða mynd er best um helgina

Verðlaunahátíð ungra áhorfenda fer fram vítt og breitt um Evrópu sunnudaginn 13. nóvember. Í ár fer hátíðin fram í 42 löndum, þar sem krakkar á aldrinum 12-14 ára taka þátt í að kjósa sigurmyndina.

Á Íslandi koma dómnefndir saman í Reykjavík, á Ísafirði og á Sauðárkróki, til að skera úr um hvaða mynd, af þremur tilnefndum, er best.

Í Bíó Paradís fer fram dagskrá þar sem krakkarnir horfa á myndirnar saman og taka þátt í umræðum um þær. Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, Eva Sigurðardóttir, kvikmyndagerðarmaður, og Erla Stefánsdóttir, verkefnastjóri nýsköpunarsmiðju Mixtúru, stjórna umræðum um myndirnar og Baltasar Kormákur ræðir svo við krakkana um störf leikstjórans.

Deginum lýkur með kosningu og verðlaunamyndin kynnt í beinu streymi á vef Young Audience Award .

Um leið verður mánuði evrópskra kvikmynda ýtt úr vör, þar sem fjölbreytileika kvikmynda frá Evrópu er fagnað í heilar fjórar vikur. Frá 13. nóvember taka kvikmyndahús 35 landa, þar á meðal Bíó Paradís í Reykjavík, þátt í að hampa evrópskri kvikmyndagerð með því að sýna myndir eftir þekktustu kvikmyndagerðarmenn álfunnar. Dagskráin nær hápunkti sínum í Reykjavík, 10. desember, þegar verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fer fram í Hörpu.