Íslensk kvikmyndagerð í brennidepli á Les Arcs kvikmyndahátíðinni
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Les Arcs stendur fyrir íslenskum kvikmyndafókus í desember 2024.
Fjöldi íslenskra kvikmynda verður af því tilefni sýndur í aðaldagskrá hátíðarinnar og íslensku kvikmyndagerðarfólki boðið til að kynna verk sín fyrir áhorfendum. Samhliða hátíðinni fer fram bransahátíð, Industry Village, þar sem íslensk kvikmyndaverk í vinnslu verða sömuleiðis kynnt.
Tilverur, kvikmynd í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur, vann ArteKino-verðlaun Les Arcs 2021.
Tengsl kvikmyndahátíðarinnar við Ísland eru afar sterk. Fjölmörg íslensk kvikmyndaverk hafa tekið þátt í hátíðinni og kvikmyndagerðarfólk hefur sótt hátíðina heim um langt skeið, svo sem Rúnar Rúnarsson (Þrestir, Bergmál), Grímur Hákonarson (Hrútar, Héraðið), Baltasar Kormákur (Djúpið), Dagur Kári (Fúsi), Guðmundur Arnar Guðmundsson (Berdreymi, Hjartasteinn), Ísold Uggadóttir (Andið eðlilega), Valdimar Jóhannsson (Dýrið) og Ninna Pálmadóttir (Tilverur). The team of the festival even organised Islenska Vikan, a week dedicated to Icelandic culture in Paris in 2022. Hátíðin stóð einnig fyrir viðamikilli kvikmyndadagskrá á íslenskri menningarviku sem fór fram í París sumarið 2022.
Hátíðin fer fram 14.-21. desember 2024.
Industry Village – opið fyrir umsóknir
Bransahátíðin Industry Village fer fram 14. - 17. desember. Opið er fyrir umsóknir til 30. júlí.
Verkefni sem taka þátt keppa um samframleiðsluverðlaun Eurimages, sem nema 20.000 evrum. Einnig verða Artekino-verðlaunin veitt, sem nema 6.000 evrum.