Íslenskar kvikmyndir sigursælar í Lübeck
Þrjú íslensk kvikmyndaverk hlutu verðlaun á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi. Lokaathöfn kvikmyndahátíðarinnar, sem er ein sú stærsta og mikilvægasta sem helguð er kvikmyndagerð á Norðurlöndum, fór fram á laugardag.
Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, og stuttmynd hans, O (hringur), hlutu þar verðlaun. Annars vegar Interfilm-kirkjuverðlaunin fyrir Ljósbrot og hins vegar var O (hringur) valin besta stuttmyndin. Katla Njálsdóttir, sem fer með eitt hlutverka í Ljósbroti, tók á móti verðlaununum.
Heimildamyndin Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, í leikstjórn Pamelu Hogan, var valin besta heimildarmyndin. Myndin er gerð í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur, sem veitti verðlaununum viðtöku á hátíðinni.
Þetta er í 66. sinn sem Norrænir kvikmyndadagar fara fram í Lübeck. Í ár voru fimm íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk sýnd á hátíðinni.