Um KMÍ
Á döfinni

27.1.2021

Íslenskar myndir á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg - A Song Called Hate í keppni norrænna heimildamynda

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg fer fram í 44. skipti dagana 29. janúar - 8. febrúar í stafrænu formi. Hátíðin er sú stærsta á Norðurlöndunum og alls munu 9 íslensk verkefni taka þátt. 

A Song Called Hate 

Heimildamynd Önnu Hildar, A Song Called Hate, mun koma til með taka þátt í keppni norrænna heimildamynda (Nordic Documentary Competition) á hátíðinni. Verðlaunin sem A Song Called Hate keppir um bera heitið Dragon Award Best Nordic Documentary og alls keppa sex heimildamyndir í flokknum.

Sjónvarpsþáttaröðin Systrabönd er tilnefnd til verðlauna fyrir besta handrit dramasjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) stendur fyrir. Verðlaunin verða afhent á hátíðinni þann 3. febrúar. Jóhann Ævar Grímsson á hugmyndina að þáttaröðinni en auk hans skrifuðu handritin Björg Magnúsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Silja Hauksdóttir, en Silja er jafnframt leikstjóri þáttanna.

Tvö verkefni verða kynnt sem verk í vinnslu á markaði hátíðarinnar (Nordic Film Market), það eru kvikmyndirnar Leynilögga eftir Hannes Þór Halldórsson og Wolka eftir Árna Ólaf Ásgeirsson. Markaðurinn fer fram dagana 4. - 7. febrúar samhliða hátíðinni. 

Þá verður sjónvarpsþáttaröðinVerbúð, leikstýrt af Gísla Erni Garðarssyni, Birni Hlyni Haraldssyni og Maríu Reyndal, kynnt sem verk í vinnslu í TV Drama Vision hluta hátíðarinnar og þáttaraðirnar Vigdís eftir Baldvin Z og hin króatíska/íslenska The Possibility of an Island kynntar sem verkefni í þróun. Að auki munu þáttaraðirnar Vegferðin eftir Baldvin Z og Vitjanir eftir Evu Sigurðardóttir vera hluti af sýningarröð nýrra og komandi Norrænna sjónvarpsþáttaraða.

Allar nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Gautaborg má finna á heimasíðu hennar.