Um KMÍ
Á döfinni

11.11.2021

Kvikmyndamiðstöð Íslands stendur fyrir ráðstefnu um kvikmyndalæsi og gerð barnaefnis þann 18. nóvember

Við gleðjumst yfir því að geta haldið ráðstefnuna í ljósi gildandi samkomutakmarkana. Við munum hafa umhverfið eins öruggt og hægt er og því biðjum við skráða gesti um að framvísa neikvæðu hraðprófi við komu, en hvert próf gildir í 48 klst. Hraðpróf er án endurgjalds fyrir gesti og auðvelt er að bóka sér tíma. Hægt er að finna staðsetningar og nánari upplýsingar hér: https://hradprof.is/ og https://www.testcovid.is/is

Ráðstefnan, sem haldin verður á Nauthól þann 18. nóvember, er ætluð þeim sem starfa með börnum og í þágu þeirra, t.a.m kvikmyndagerðarfólki, kennurum og fulltrúum opinberra stofnana og sveitarfélaga.

Kvikmyndin er margþætt listform sem byggir á náinni samvinnu fjölmargra ólíkra aðila. Í kvikmyndalæsi er sjónum beint að sögunni sem sögð er í kvikmyndinni og persónum hennar en einnig að fagurfæði. Rýnt er í hvernig kvikmyndataka, hljóð, tónlist, hreyfing myndavélar, klipping, leikmynd, búningar, förðun, brellur og eftirvinnsla hafa áhrif á frásögn og uppbyggingu myndarinnar og hvaða áhrif það hefur á upplifun áhorfandans. Í kvikmyndalæsi þjálfast áhorfandinn í að setja sig í spor annarra, jafnframt því að líta í eigin barm og tjá sína upplifun.

Á ráðstefnunni er lagt upp með að þátttakendur fái í hendur verkfæri og hagnýta punkta sem geta nýst þeim í starfi. Tilgangur ráðstefnunnar er að styrkja framleiðslu og miðlun á vönduð barnaefni.

Þrír gestir koma frá dönsku kvikmyndastofnuninni en þau búa yfir mikilli reynslu af gerð námsefnis og stuðningsefnis fyrir kennara á öllum skólastigum og sýningahaldi. Auk þess standa þau að kvikmyndasmiðju þar sem börn geta spreytt sig á grunnþáttum kvikmyndagerðar. Aðrir fyrirlesarar, bæði erlendir og innlendir, hafa mikla reynslu af kvikmyndagerð fyrir börn og margt má læra af þeim um stefnumörkun. Meðal þeirra eru íslenskir kvikmyndagerðarmenn sem hafa lagt fyrir sig gerð barnaefnis eða eru leiðandi höfundar að slíku efni.

Boðið verður upp á hádegismat meðan á ráðstefnunni stendur og aðgangur er ókeypis.

Takmarkað sætaframboð er á ráðstefnunni og því óskum við eftir að áhugasamir skrái sig með því að senda póst á netfangið gudrun@kvikmyndamidstod.is með upplýsingum um nafn, símanúmer og starfsvettvang fyrir miðvikudaginn 16.nóvember.

Hér má skoða dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni.