Sigurjón Sighvatsson tilnefndur til framleiðendaverðlauna Nordisk Panorama
Sigurjón Sighvatsson er á meðal fimm framleiðenda sem tilnefndir eru til verðlauna Nordisk Panorama sem helguð eru framleiðendum heimildamynda á Norðurlöndum.
Sigurjón hefur á löngum ferli komið að framleiðslu yfir 60 kvikmynda í og sjónvarpsþátta. Meðal heimildamynda sem hann hefur framleitt eru Madonna: Truth or Dare og Zidane: A 21st Century Portrait. Í rökstuðningi segir að Sigurjón sé þekktur sem örlátur velunnari meðal yngri kynslóðar íslenskra kvikmyndagerðarmanna.
Tilkynnt verður um hver hlýtur verðlaunin á kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama, sem fer fram 19.-24. september.
Sjá einnig: Fjöldi íslenskra stutt- og heimildamynda sýndar á Nordisk Panorama
Nordisk Panorama fer fram í Malmö í Svíþjóð 19.-24. september. Sjö íslenskar stutt- og heimildamyndir verða sýndar á hátíðinni í ár, auk þess sem fimm verkefni verða kynnt á Nordisk Panorama Forum og Nordic Short Film Pitch. Nordisk Panorama er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.