Skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar á RIFF
RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík , hefst 28. september og stendur yfir til 8. október. Þetta er í 20. sinn sem hátíðin fer fram og verða yfir 80 kvikmyndir í fullri lengd sýndar auk fjölda stuttmynda frá alls 63 löndum.
Opnunarmyndin er Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur, sem fyrir skemmstu var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. Einnig verða fjórar íslenskar heimildamyndir sýndar á hátíðinni: Togolísa, í leikstjórn Öldu Lóu Leifsdóttur, Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, í leikstjórn Pamelu Hogan, Að tilheyra, í leikstjórn Sævars Guðmundssonar og Kreshniks Jonuzi, og Mannvirki, í leikstjórn Gústavs Geirs Bollasonar. Til að halda upp á 20. útgáfu RIFF verða ennfremur þær íslensku stuttmyndir sem hlotið hafa verðlaun á hátíðinni í gegnum árin sýndar.
Sjá einnig: Isabelle Huppert, Vicky Krieps og Luca Guadagnino heiðursgestir RIFF 2023
Frönsk kvikmyndagerð er í brennidepli á hátíðinni og verða sýndar yfir 30 kvikmyndir frá Frakklandi. Þar á meðal er Sidonie in Japan, eftir Élise Girard, með Isabelle Huppert í aðalhlutverki, en hún er einn heiðursgesta hátíðarinnar.
Meðal annarra mynda sem sýndar verða á RIFF í ár er heimildamyndin Apolonia, Apolonia, eftiri Leu Glob ; finnska gamanmyndin, Family Time, frumraun Tia Kouvo sem sýnd var á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu ; Sweet East, eftir Sean Price Williams, sem unnið hefur til fjölda verðlauna síðan hún var frumsýnd í Cannes í vor ; Baan, eftir Leonor Teles, sem frumsýnd var við góðar undirtektir í Locarno í sumar ; og May December eftir Todd Haynes. Lokamynd hátíðarinnar er Poor Things eftir Yorgos Lanthimos. Hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir skemmstu og hlaut þar aðalverðlaun.
Sjá einnig: Bransadagar RIFF 2023
Auk kvikmyndasýninga fer fram mikill fjöldi sérviðburða á RIFF. Hægt er að kynna sér dagskrána á vef hátíðarinnar.