Um KMÍ
Á döfinni

1.8.2024

Þrenn alþjóðleg verðlaun til Ljósbrots á einni helgi

Kvikmyndin Ljósbrot, í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, hlaut tvenn verðlaun sunnudaginn 28. júlí; aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar Cinehill í Króatíu sem og sérstök verðlaun dómnefndar á vegum Alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnenda.

Danilo Šerbedžija, formaður dómnefndar Cinehill-kvikmyndahátíðarinnar tilkynnti að kvikmyndin Ljósbrot hefði hlotið aðalverðlaunin. Í tölu sinni sagði hann að dómnefndin hampaði myndinni fyrir ljóðræna og hógværa kvikmyndalist. „Fyrir fíngerðan leik og frásagnarlist, þar sem tekist er á við óvænt drama með þeim hætti að sagan og frumlegar persónur fanga áhorfendur.”

Mike Naafs, formaður dómnefndar Alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnenda, sagði að frábær leikstjórn, áhugaverð aðalpersóna og lágstemmt en harmþrungið andrúmsloft hafi heillað dómnefndina. „Sterk skilaboð sem benda áhorfandanum á að skyndilegt högg örlaganna geti breyta lífi fólks að eilífu.“

Fyrir skemmstu var tilkynnt um að Rúnar hefði hlotið verðlaun fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Palic í Serbíu. Þrenn alþjóðleg verðlaun féllu því í skaut kvikmyndarinnar á einni helgi.

https://www.youtube.com/watch?v=wSP2_6VSutM

Rúnar segir að það sé mikil gæfa að hafa þetta hæfileikaríkan hóp leikara fyrir framan kvikmyndavélina og her fagfólks og listamanna fyrir aftan hana. „Þetta er þvílík viðurkenning fyrir okkur öll, sem og íslenska kvikmyndagerð”

„Að vinna verðlaun fyrir bestu myndina, fyrir besta leikstjórann og verðlaun alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnanda, allt á sömu helgi, er frábær árangur fyrir Rúnar og allt kvikmyndateymið okkar,“ segir Heather Millard framleiðandi. „Það eru alltaf forréttindi og ákveðin árangur að vera valin til sýninga á kvikmyndahátíðum og fyrir það erum við þakklát. Öll þessi verðlaun gera okkur orðlaus en við vitum að þetta á eftir að hjálpa Ljósbroti sem og öðrum íslenskum kvikmyndum við að ferðast víðar um heiminn. Fyrir allt þetta erum við þakklát.”