Um KMÍ
Á döfinni

3.4.2023

Þröstur Leó valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Bari

Þröstur Leó Gunnarsson hlaut um helgina verðlaun sem besti leikarinn á  BIF&ST, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Bari á Ítalíu. Verðlaunin hlýtur hann fyrir leik í kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu.

Í fréttatilkynningu segir að Þröstur Leó hafi í þakkarræðu sinni sagst taka auðmjúkur á móti verðlaununum, sem hefðu komið sér á óvart. Hann þakkaði meðleikurum sínum Kristbjörgu Kjeld og hundinum Dreka sérstaklega, sem og Hilmari Oddssyni leikstjóra og Hlín Jóhannesdóttur, framleiðanda fyrir gefandi samstarf.

Í dómnefnd sátu Jafar Panahi (heiðursforseti dómnefndar), Jean Gili (forseti dómnefndar), Bettina Brokemper, Valeria Cavalli, Salvatore Maira, Pippo Mezzapesa og Grazyna Torbicka.

Á ferð með mömmu hefur notið mikillar velgengni síðan hún var heimsfrumsýnd í nóvember á Tallinn Black Nights Film Festival í Eistlandi. Þar hlaut hún aðalverðlaun hátíðarinnar sem besta kvikmyndin, auk verðlauna fyrir bestu kvikmyndatónlistina. Myndin hefur verið sýnd víðar á alþjóðlegum hátíðum, í Gautaborg í Svíþjóð, Glasgow í Skotlandi og Cleveland í Bandaríkjunum.

Í myndinni fer Þröstur Leó með hlutverk Jóns, sem tekur sér ferð á hendur þvert yfir landið með lík móður sinnar í aftursætinu, til að uppfylla hennar hinstu ósk. Móður hans leikur Kristbjörg Kjeld, en með önnur hlutverk fara Hera Hilmarsdótir og Tómas Lemarquis.