Um KMÍ
Á döfinni

30.5.2023

Vinnusmiðja fyrir heimildamyndir með Mörtu Andreu

Samtök kvikmyndaleikstjóra standa fyrir vinnusmiðju fyrir heimildamyndir í vinnslu með hinum reynslumikla ráðgjafa Mörtu Andreu. Smiðjan fer fram með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og umsóknarfrestur er til 2. júní 2023.

Vinnusmiðjan er haldin í tvö skipti: 20.-23. júlí á Akranesi, í samstarfi við alþjóðlegu heimildamyndahátíðina IceDocs, og sú seinni 12., 13. og 14. september í Reykjavík í samstarfi við Hafnar Haus. 15. september verður meistaraspjall með Mörtu Andreu í Bíó Paradís, í samstarfi við Skjaldborg kvikmyndahátíð og Bíó Paradís. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Á IceDocs mun Marta velja tvær myndir sem verða sýndar á hátíðinni fyrir þáttakendur smiðjunnar (fimmtudag og föstudag) og hátíðargesti. Þáttakendur munu fá tækifæri til að bóka ráðgjöf með völdum erlendum gestum á IceDocs á meðan hátíðinni stendur.

Verkefnastjóri er Yrsa Roca Fannberg og berast allar fyrirspurnir og umsóknir á netfangið yrsarocafannberg@gmail.com.

Smiðjan er fyrir heimildamyndir í vinnslu, hvort sem það er á handritsstigi, í tökum eða klippingu. Í smiðjunni verður lögð áhersla á hið skapandi ferli í kvikmyndagerðinni, frekar en fyrirfram mótaðar hugmyndir og skilgreiningar á heimildamyndum. Eftir sem áður eiga verk sem falla að slíkum skilgreiningum greiðari leið í smiðjuna, en tilraunakenndari verk og skálduð verk sem vísa í formið eru einnig velkomin. Sjónræn miðlun heimildaefnis er skapandi ferli og blöndun milli miðla hefur rutt sér rúms á undanförnum árum. Þær myndir sem hlotið hafa athygli á kvikmyndahátíðum vinna með mörkin milli miðla. Það sem verður metið við val á verkefnum eru gæði umsóknarinnar, skýr listræn sýn með áherslur á raunveruleikann og kvikmyndamiðilinn sem og áhersla á að fjalla um samtímann á sem áhrifamestan og skapandi hátt og hægt er.

Verkefni sem hafa áður tekið þátt í heimildasmiðjunni þar sem Marta Andreu var ráðgjafi, árin 2021 og 2022, eru velkomin að sækja um en verkefni þurfa að hafa verið þróuð síðan þau fengu ráðgjöf síðast. Gert er ráð fyrir að 5-6 verkefni taki þátt.

Ráðgjafi er Marta Andreu, sem hefur mikla reynslu sem leiðbeinandi. Hún hefur meðal annars verið einn af leiðbeinendum í Torino Film Lab, Eurodoc og Open Doors of Locarno Film Festival og fjölda annara vinnusmiðja. Marta hefur verið hluti af World Cinema Fund Program hjá Berlinale síðan 2011, þar velur hún verkefni á ýmsum framleiðslustigum sem hljóta styrki úr sjóðnum. Sjá nánar um Mörtu Andreu hér .

Þátttökugjald er 20.000 ISK þar sem innifalið er gisting, morgun- og hádegismatur á IceDocs. Þátttakendur þurfa að greiða fyrir kvöldverð og ferðakostnað. Í Reykjavík þurfa þátttakendur að greiða fyrir fæði, gistingu og ferðakostnað. Ætlast er til að allir þátttakendur taki fullan þátt í báðum smiðjum og taki sér tíma til að vinna að myndinni sinni á milli þeirra.

Smiðjan fer fram á ensku og eiga umsóknir að vera á ensku og berast sem eitt pdf skjal, sem inniheldur synopsis (max 1 bls), greinagerð leikstjóra (e. Letter of intent) (max 1 bls), treatment sem inniheldur (mögulegar persónur, mögulegar senur/sequences, sjónræna sýn myndarinnar: mynd og hljóð).

Nefnd velur 10 verkefni og áframsendir til Mörtu Andreu sem sér um lokaval á þátttakendum.