Um KMÍ
Á döfinni

17.8.2022

Volaða land sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto

Kvikmyndin Volaða land eftir Hlyn Pálmason hefur verið valin til þátttöku á  einni stærstu og virtustu kvikmyndahátíð Norður-Ameríku, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Toronto .

Myndin var heimsfrumsýnd kvikmyndahátíðinni í Cannes við góðar viðtökur í maí. Fyrri mynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, var einnig sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto eftir frumsýningu í Cannes 2019.

Volaða land gerist á 19. öld og segir frá ungum dönskum presti sem kemur til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

https://www.youtube.com/watch?v=_72WOvp9VU8

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto í Kanada, eða TIFF, er ein fjölsóttasta hátíð heims en um hálf milljón gesta sækir hana að jafnaði í hverjum septembermánuði og um fimm þúsund manns úr alþjóðlegum kvikmyndaheimi.

TIFF fer fram 8.-18. september. Frekari upplýsingar má finna á vef hátíðarinnar.