Um KMÍ
Á döfinni

2.9.2022

Hildur Guðnadóttir heiðruð í Toronto

Hildur Guðnadóttir, tónskáld, hlýtur heiðursverðlaun á TIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem fram fer 8.–18. september.

Verðlaunin, TIFF Variety Artisan Award, eru veitt listafólki sem borið hefur af með framúrskarandi framlagi til kvikmynda- og afþreyingarlistar. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Ari Wegner, Terence Blanchard og Roger Deakins.

Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker árið 2019. Fyrir tónlistina hlaut hún fjölda annarra verðlauna, svo sem Golden Globe, BAFTA og Grammy. Meðal annarra verka hennar má nefna tónlistina í Sicario: Day of the Soldado og HBO-þáttunum Chernobyl. Hildur samdi tónlist fyrir íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð, kvikmyndina Eiðinn og nú síðast heimildamyndina Út úr myrkrinu.

Tvær bandarískar kvikmyndir eru væntanlegar á árinu, Tár eftir Todd Field og Women Talking eftir Söruh Polley, þar sem Hildur semur tónlistina.

Sjá einnig:

Volaða land sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto

Á ferð með mömmu hluti af Industry Selects í Toronto