Hlynur Pálmason með tvær myndir í keppni á hátíðinni í San Sebastian
Kvikmyndin Volaða land og stuttmyndin Hreiður, eftir Hlyn Pálmason, verða sýndar í keppnisflokki San Sebastian hátíðarinnar, Zabaltegi-Tabakalera , sem fer fram á Spáni 16.-24. september.
Volaða land var heimsfrumsýnd við góðar undirtektir í Cannes í maí á þessu ári , í Un Certain Regard. Myndin segir frá ferðalagi sem ungur danskur prestur leggur á sig um óbyggðir Íslands, seint á síðustu öld. Þar hyggst hann reisa kirkju og mynda íbúa eyjunnar, en missir smám saman sjónar á ætlunarverki sínu.
Hreiður var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín , þar sem hún var sérvalin af Carlo Chatrian, listrænum stjórnanda hátíðarinnar. Myndin er saga af systkinum sem byggja saman trjákofa. Í henni er fylgst með lífi þeirra og ferli í heilt ár í gegnum hamingju og þjáningu.
Kvikmyndahátíðin í San Sebastian er ein af lykilhátíðum Evrópu. Auk Volaða lands og Hreiðurs er kvikmynd Dinöru Drukarova, Grand Marin , þar sýnd. Kvikmyndin er frönsk-íslensk samframleiðsla og eru Björn Hlynur Harldsson og Hjörtur Jóhann Jónsson á meðal íslenskra leikara.