Um KMÍ
Á döfinni

14.2.2018

Ísland á Berlinale kvikmyndahátíðinni

Nokkur íslensk verkefni verða á kvikmyndahátíðinni í Berlín sem fer fram dagana 15.-25. febrúar. Tveir íslenskir listamenn standa að erlendum verkefnum sem voru valin til þátttöku í keppni á hátíðinni.

Markaðssýningar

Markaðssýningar fara fram á myndunum Andið eðlilega eftir Ísoldu Uggadóttur og Lói - þú flýgur aldrei einn eftir Árna Ólaf Ásgeirsson. 

AndBreatheNormally_Aspect16-9Andið eðlilega hefur farið vel af stað á ferðalagi sínu á kvikmyndahátíðir. Ísold hlaut verðlaun fyrir leikstjórn á Sundance kvikmyndahátíðinni þar sem myndin var heimsfrumsýnd í janúar síðastliðnum. Eins hlaut myndin gagnrýnendaverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg sem fór fram í byrjun mánaðarins. 

Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. mars. 

PloeyLói- þú flýgur aldrei einn var frumsýnd á Íslandi 2. febrúar og hafa nú yfir 9000 manns séð myndina í íslenskum kvikmyndahúsum. Myndin hefur hlotið góða dóma í íslenskum miðlum

Myndin fjallar um lóuungann Lóa sem er ófleygur þegar haustið kemur og farfuglarnir fljúga suður á bóginn. Hann þarf að lifa af harðan veturinn og kljást við grimma óvini til að eiga möguleika á að sameinast aftur ástvinum sínum að vori.


Íslensk verkefni á Berlinale Co-Production Market

Hvítur, hvítur dagur
Hvítur, hvítur dagur, nýtt verkefni Hlyns Pálmasonar sem áætlað er að fari í tökur í ágúst á þessu ári, var eitt af einungis tveimur verkefnum sem valin voru í svokallaða Rotterdam-Berlinale Express á samframleiðslumarkaðnum á Berlinale kvikmyndahátíðinni. Samframleiðslumarkaðurinn hefst 16. febrúar þar sem verkefnið verður kynnt.

Verkefnið vann nýverið til ARTE verðlaunanna á CineMart, samframleiðslumarkaði hinnar virtu Rotterdam kvikmyndahátíðar. 


Verbúð 
ÞáttaröðinVerbúð , sem fjallar á dramatískan hátt um afleiðingar kvótakerfis fyrir lítið þorp, hefur verið valin til þátttöku á CoPro Series á Berlínale samframleiðslumarkaðnum. Verkefnið er eitt af einungis átta verkefnum sem fá að kynna á þessum sérstaka viðburði. 

Verbúð verður leikstýrt af Birni Hlyni Haraldssyni og Gísla Erni Garðarssyni, handritið skrifar Mikael Torfason og Vesturport framleiðir. 



 

Íslenskir listamenn í keppni á Berlinale

Adam, þýsk kvikmynd eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, hefur verið valin til þátttöku í Generation hluta kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Þá er íslenski leikarinn Tómas Lemarquis í aðalhlutverki rúmensku kvikmyndarinnar Touch Me Not eftir Adina Pintilie, sem hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni hátíðarinnar.

Adam valin til keppni í Generation section.

María Sólrún leikstýrir og skrifar handritið að Adam og framleiðir myndina ásamt Jim Stark og syni sínum Magnúsi Maríusyni sem jafnframt fer með aðalhlutverkið.

Um er að ræða aðra kvikmynd Maríu Sólrúnar í fullri lengd. Fyrri mynd hennar, Jargo frá árinu 2004, var einnig valin til þátttöku á Berlínarhátíðinni það ár.

Tómas Lemarquis í aðalhlutverki í Touch Me Not
Adina Pintilie leikstýrir og skrifar handritið að Touch Me Not, sem er hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Tómas Lemarquis leikur eitt af aðalhlutverkum myndarinnar. Myndin verður heimsfrumsýnd á Berlínarhátíðinni þar sem hún keppir í aðalkeppninni.  

Tómas Lemarquis skaust fram á sjónarsviðið þegar hann lék titilhlutverkið í kvikmynd Dags Kára, Nóa albínóa, árið 2003. Síðan þá hefur hann leikið í myndum á við Blade Runner: 2049X-Men: Apocalypse3 Days to Killog Snowpiercer. Árið 2009 lék Tómas aðalhlutverkið í íslensku kvikmyndinni Desember og í haust verður kvikmyndin Mihkel frumsýnd, þar sem hann leikur eitt aðalhlutverkanna. 


Aðrir Íslendingar á Berlínarhátíðinni

Erlingur Jack Guðmundsson valinn til þátttöku á Berlinale Talents
Erlingur Jack Guðmundsson tekur þátt í Berlinale Talents í ár með verkefnið sitt Levels. Erlingur mun leikstýra og skrifa handritið af Levels sem verður framleitt af Davíð Má Stefánssyni. 

Levels
, sem er lýst sem fantasíu/vísindaskáldskap, fjallar um mann sem vaknar á eyðieyju og kemst að því að hann er ásóttur af annarri manneskju.  

Erlingur Jack hefur áður framleitt íslensku myndirnar Grimmd og Grafir og bein, eftir Anton Sigurðsson. 

Herdís Stefánsdóttir spilar á Berlinale Lounge Night

Tónlistarkonan Herdís Stefánsdóttir spilar í Audi Lounge, laugardaginn 17. febrúar kl. 20. Með henni verður tónlistarmaðurinn Baldur Hjörleifsson. 

Herdís er tónskáld og raftónlistarkona sem lauk mastersgráðu frá NYU árið 2017 í tónsmíðum fyrir kvikmyndir. Tónlist hennar má heyra í nígerísku stuttmyndinni Besida, sem verður sýnd á Berlinale Shorts.