Ný heimildamynd um Megas sýnd á Midnight Sun Film Festival
Heimildamynd Spessa (Sigurþór Hallbjörnsson) um tónlistarmanninn Megas og kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu, verða sýndar á finnsku kvikmyndahátíðinni Midnight Sun Film Festival sem fer fram 14.-18. júní.
Þetta er fyrsta heimildamynd Spessa, en hann er einn nafnkunnasti ljósmyndari landsins. Myndin er tekin yfir 20 daga tímabil árið 2019 í kringum stórtónleika Megasar í Hörpu. Í henni er fjallað um langan feril Megasar í gegnum samtöl við sjálfan listamanninn og annað tónlistarfólk sem hefur unnið með honum í gegnum árin.
Spessi er á meðal heiðursgesta hátíðarinnar, ásamt Önnu Hints, leikstjóra myndarinnar Smoke Sauna Sisterhood, sem er samframleiðsla milli Eistlands, Frakklands og Íslands.
Á ferð með mömmu var heimsfrumsýnd á Tallinn Black Nights Film Festival í Eistlandi í nóvember 2022. Þar hlaut hún aðalverðlaun hátíðarinnar og hefur síðan ferðast á milli virtra kvikmyndahátíða um allan heim.
Midnight Sun Film Festival var stofnuð árið 1986 af Kaurismäki bræðrunum, þeim Aki og Mika. Hátíðin fer fram ár hvert í þorpinu Sodankylä í Lapplandi.